Lilja fagnar íslenskufrumkvæði Laufeyjar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir fagnar því að Laufey vilji íslensku í …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir fagnar því að Laufey vilji íslensku í Duolingo. mbl.is/María Matthíasdóttir

„Ég fagna þessu frumkvæði Laufeyjar mikið og það er frábært að sjá okkar unga listafólk leggja sitt af mörkum til þess að tryggja að íslenskan sé alls staðar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is um nýlega áskorun tónlistarkonunnar Laufeyjar til aðstandenda tungumálaforritsins Duolingo.

Laufey spurði í spjallmöguleika forritsins hvers vegna það byði ekki upp á íslensku og fékk aðra spurningu til baka um hvort hún hefði áhuga á að aðstoða við kennsluna.

Komin með frábæran bandamann

„Við erum að ná frábærum árangri við að koma íslenskunni fyrir í gervigreindinni eins og þjóðin þekkir gegnum [gervigreindarspjallvölvuna] ChatGPT og ég hef verið að leggja áherslu á að ná íslenskunni inn í Duolingo og nú er ég komin með frábæran bandamann þar,“ heldur ráðherra áfram.

Hún kveður það, að tónlistarkona hafi uppi slíka áskorun, sýna hve íslenskan sé tónlistarfólki hérlendu kær „nú er Laufey að gera það mjög gott um heim allan en þrátt fyrir það sér hún hvaða gersemi íslenskan er“, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert