Milljarða tekjutap af tveggja ára töf

Gefið hefur verði út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.
Gefið hefur verði út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Tölvumynd/Landsvirkjun

„Þetta er tvíþætt, annars vegar aðilar sem eru starfandi hér í dag eins og álverin og fleiri sem bundu vonir við að geta keypt meiri orku og hins vegar er þó nokkuð af fyrirtækjum sem hafa haft áhuga á viðræðum sem hefur ekki verið hægt að sinna.“

Þetta segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í samtali við Morgunblaðið, spurður um hvort þess væru mörg dæmi að ekki hefði verið unnt að verða við óskum fyrirtækja um raforkukaup sökum ónógs orkuframboðs.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, vakti athygli á því í Morgunblaðinu í gær að fyrirtæki víða um land liðu fyrir orkuskort. Orkuþörf í samfélaginu færi jafnframt vaxandi.

Hörður segir það að hafa ekki getað orðið við óskum starfandi fyrirtækja hér á landi um meiri raforkukaup hafa valdið þeim talsverðu óhagræði.

Tjón samfélagsins meira

Áherslur Landsvirkjunar sagði hann fyrst og fremst þær að styðja við vöxt á almenna markaðinum og væri það í forgangi. Einnig að styðja við fjölbreyttan iðnað, eins og gagnaver sem stunda ekki námugröft og matvælavinnslu o.fl. en ekki hefði verið hægt að verða við óskum fyrirtækja í þeim greinum um orku. Þá hefði ekki verið unnt að verða við óskum stóriðju sama efnis.

Spurður um af hve miklum tekjum Landsvirkjun hefði orðið vegna þess að ekki hefði verið hægt að verða við óskum fyrirtækja um meiri orku segir Hörður að erfitt sé að leggja mat á það.

„Við höfum bent á í mörg ár að auka þyrfti orkuframboð. Það sem er að gerast er að almenni markaðurinn er að vaxa um tíu til fimmtán megavött á ári og bara það að tryggja honum orku þrengir að öllum öðrum. Við viljum að orkuframboðið styðji við hagvöxt, enda er stuðningur við það í samfélaginu. Það að hafa ekki komist af stað með Hvammsvirkjun fyrir tveimur árum, þegar virkjunarleyfið var fellt úr gildi, veldur okkur miklum vandræðum og tjóni í dag. Ég held að afleidda tjónið fyrir samfélagið sé þó miklu meira en tjón Landsvirkjunar,“ segir Hörður.

Spurður af hve miklum tekjum Landsvirkjun verði vegna tveggja ára tafa á Hvammsvirkjun segir Hörður þær miklar.

„Þetta eru fjórir til fimm milljarðar á ári,“ segir Hörður, þannig að tveggja ára töf á gangsetningu virkjunarinnar veldur átta til tíu milljarða króna tekjutapi fyrir Landsvirkjun á tveimur árum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert