Nýr umboðsmaður Alþingis verður kjörinn á Alþingi í dag en Skúli Magnússon, sem hefur starfað sem umboðsmaður Alþingis frá árinu 2021, hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt frá og með 1. október næstkomandi.
Fjórir einstaklingar hafa gefið kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis. Það eru: Anna Tryggvadóttir skrifstofustjóri, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Reimar Pétursson lögmaður.
Forsætisnefnd Alþingis auglýsti í júlí að hún myndi fyrir lok septembermánaðar gera tillögu til Alþingis um einstakling til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis. Boðað hefur verið til fundar í forsætisnefnd Alþingis klukkan tíu og á atkvæðagreiðsla um tilnefningu nefndarinnar að hefjast upp úr hádegi.