Rannsókn í byrlunar- og símamáli felld niður

Blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson,Þóra Arn­órs­dóttiur og Þórður Snær …
Blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson,Þóra Arn­órs­dóttiur og Þórður Snær Júlí­us­son voru á meðal þeirra sem höfðu réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins, sem nú hefur verið felld niður. Samsett mynd

Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefur tekið ákvörðun um að hætta rannsókn í máli er varðar meinta byrlun, afritun á upplýsingum af síma einstaklings og dreifingu á kynferðislegu myndefni. Brotið var tilkynnt lögreglu í maímánuði 2021.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra á Facebook en þar segir að við rannsóknina hafi sjö einstaklingar fengið réttarstöðu sakbornings. Sakarefnið var þrennskonar og beindust allir þættir að einum sakborningi en einn þáttur að öðrum sakborningum.

  1. Líkamsárás, byrlun, 217. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Einn aðili var undir rökstuddum grun um að hafa byrlað brotaþola lyf. Engin gögn í málinu gáfu lögreglu tilefni til að gruna aðra sakborninga um að hafa átt þátt í að byrla brotaþola.
  2. Brot á 199. gr. a. almennra hegningarlaga. Í málinu liggur fyrir að sakborningur sem náði síma af brotaþola kveðst hafa afhent fjölmiðli símann þar sem síminn var afritaður. Sakborningur vissi þá að í símanum var kynferðisefni sem ólögmætt er að dreifa nema með samþykki. Sannað er að sakborningur sendi sjálfum sér kynferðislegt myndefni úr síma brotaþola. Ekkert liggur fyrir um að þeir aðilar sem meðhöndluðu símann og efni úr honum eftir að hann var afhentur fjölmiðlum hafi dreift þessu kynferðislega myndefni.
  3. Brot gegn 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Að því er varðar þennan kærulið beindist rannsóknin aðallega að því að upplýsa um hver hefði afritað innihald símans sem fenginn var með þeim hætti sem áður hefur verið lýst. Framburður sakbornings sem afhenti fjölmiðlum símann hefur verið stöðugur allan tímann sem rannsóknin hefur staðið um að hann hafi afhent fjölmiðlum símann og þar hafi síminn verið afritaður. Sakborningurinn hefur einnig verið stöðugur í framburði um að hafa upplýst þá sem tóku við símanum hvernig síminn væri til kominn og hver ætti símann. Í júlí síðastliðnum upplýsti sakborningur um að hafa afhent fréttamanni RÚV símann í húsnæði RÚV í Reykjavík. Sá hafi kallað til annan starfsmann RÚV sem tók við símanum og fór með hann til þriðja aðila sem hann gat ekki upplýst um hver hefði verið. Þessir starfsmenn RÚV hefðu verið með símann í sólarhring og sakborningur hefði komið daginn eftir á RÚV og fengið símann afhentan aftur.

Tókst ekki að sanna hver afritaði símann

Í tilkynningu lögreglu segir m.a., að það sé mat lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola.

„Þeir sem birtu fréttir upp úr gögnum símans fengu réttarstöðu sakbornings auk þeirra sem sannað er að höfðu verið í samskiptum við þann sakborning sem afhenti símann til fjölmiðla. Sakborningar sem störfuðu hjá fjölmiðlum neituðu að tjá sig hjá lögreglu og afhentu lögreglu engin gögn. Það er réttur þeirra sem hafa fengið stöðu sakbornings. Lögregla óskaði ekki eftir því við sakborninga að þeir upplýstu um heimildarmenn sína enda lá það fyrir frá upphafi rannsóknar hver heimildarmaðurinn var í máli þessu,“ segir lögreglan. 

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur fellt niður rannsókn á málinu. …
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur fellt niður rannsókn á málinu. Sjö einstaklingar fengu réttarstöðu sakbornings. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert