„Það er auðvitað mikill léttir að þessi niðurstaða skuli vera komin. Ég viðurkenni samt að ég finn líka fyrir reiði að þetta hafi fengið að viðgangast svona lengi af því að þetta er eina niðurstaðan sem hægt var að komast að, að fella þetta niður og hætta þessari glórulausu rannsókn,“ segir Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður um niðurfellingu byrlunar- og símamálsins.
Segir hann rannsóknina vera dæmi um hvernig valdið í landinu reyni að dreifa athygli frá Samherjamálinu í heild sinni.
Greint var frá því í dag að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi fellt niður málið. Var Aðalsteinn einn þeirra sjö sem voru með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Athygli hefur vakið að lögregla tilkynni að rannsókn málsins hafi verið felld niður með tilkynningu á Facebook. Jafnframt fylgdi tilkynningunni samantekt lögreglunnar á málinu og ástæðum þess að ákvörðunin var tekin.
Aðalsteinn segist halda að það sé einsdæmi að lögregla skuli stíga fram á samfélagsmiðil og birta þar langa færslu um niðurstöðu um einstaka mál. Þá segir hann færslu lögreglunnar hafa birst á um það bil sömu mínútu og hann hafi fengið tilkynningu á island.is um að rannsókn hefði verið hætt.
Hann lýsir yfir undrun sinni á málflutningi lögreglunnar í færslu embættisins.
„Þrátt fyrir að lögreglan hafi vitað það lengi að þessi málatilbúnaður og þessar kenningar stæðust enga skoðun, það var eitthvað sem lá fyrir mjög snemma í rannsókn lögreglu, að þá heldur hún áfram að reyna að sá einhverjum efasemdarfræjum um heilindi blaðamannanna sem voru undir í þessu máli.
Ég er satt best að segja bara ótrúlega hissa að lögreglan skuli halda áfram í þessum skrýtna leik en á sama tíma á ég auðvitað ekkert að vera hissa miðað við það sem hefur á undan gengið,“ segir Aðalsteinn.
Þá segir hann einnig ráðherra hafa verið óvenjuduglega við að tjá sig um málið á sama tíma og þeir segjast ekki geta talað um nokkur mál sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.
Í Facebook-færslu frá Þórði Snæ Júlíussyni segir hann að með því að fara í rannsókn á málinu hafi lögregla reynt að hafa af blaðamönnunum, sem gegndu stöðu sakbornings, æruna, heilsuna og lífsviðurværið. Segir Þórður einnig í færslu sinni að tilraunir lögreglu til að réttlæta aðfarir sínar í tilkynningu sinni séu ömurlegar.
„Það hefur legið fyrir alveg frá því þegar lögreglan fór af stað í þennan skrýtna leiðangur að það yrði aldrei nein önnur niðurstaða en þessi. Það er alveg rannsóknarefni út af fyrir sig af hverju lögreglan vill beita sér með þessum hætti, einmitt til þess að sá einhverjum efasemdarfræjum um okkar heilindi og reyna að gera okkur upp einhverjar annarlegar skoðanir og hvatir,“ segir Aðalsteinn.
Spurður um áhrifin sem málið hefur haft á hann segir Aðalsteinn málið hafa reynst sér mjög þungbært sem og fólkinu í kringum hann.
„En þetta er einn kaflinn í þessari sögu sem enn þá er verið að skrifa um það hvernig valdið reynir að dreifa athyglinni frá Samherjamáli í heild sinni, hvort sem það er Namibíumálið eða þessi skæruliðadeild og hvað það nú er. Ég fagna því auðvitað að þessi niðurstaða liggi fyrir en undirbý mig fyrir það sem kann að koma næst.“
Er málinu lokið af þinni hálfu eða sérðu eitthvað framhald á þessari sögu?
„Ég hef fullan hug á því að skoða, í samstarfi við lögmanninn minn og aðra, hvað við getum gert og hvernig við getum brugðist við. Það er ekki hægt að láta það bara niður falla hvernig lögreglan hefur komið fram.“