„Síðasta orðið hefur ekki verið sagt“

„Allir þessir einstaklingar eru áhrifamenn innan íslenskra fjölmiðla og hafa …
„Allir þessir einstaklingar eru áhrifamenn innan íslenskra fjölmiðla og hafa nýtt sér áhrif sín út í ystu æsar,“ segir Páll. Samsett mynd

Páll Steingrímsson segir síðasta orðið ekki hafa verið sagt í byrlunar- og símamálinu svokallaða. Lögreglan tilkynnti í dag að hún hefði fellt niður rannsókn málsins. Páll segir að taktík sakborninga að tefja, blekkja og afvegaleiða rannsókn málsins hafa gengið upp.

Þetta segir Páll í færslu sinni á Facebook.

„Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem bærast mað manni eftir að hafa verið brotaþoli í lögreglurannsókn sem tekið hefur ríflega þrjú ár og lýkur núna með tilkynningu lögreglunnar um að hún hafi ákveðið að hætta rannsókn málsins. Þó að ég hafi haft það á tilfinningunni um nokkurt skeið að svona gæti farið er þessi ákvörðun lögreglunnar talsvert áfall,“ segir Páll.

Tekur hann þá fram að þó rannsókn málsins hafi verið hætt muni hann halda áfram við að leita réttlætis vegna þeirrar árásar sem hann sakar hóp fjölmiðlamanna um að hafa gert á fjölskyldu sína.

Rannsóknin hafi aldrei snúist um fréttaskrif

Segir Páll í færslunni að hann skori á fólk að lesa tilkynningu lögreglunnar gaumgæfilega og láta ekki blekkingar sakborninganna villa sér sýn.

Segir hann að viðbrögð blaðamannanna við niðurstöðunni í dag sýni að sem fyrr fari þeir með staðlausa stafi.

„Allir þessir einstaklingar eru áhrifamenn innan íslenskra fjölmiðla og hafa nýtt sér áhrif sín út í ystu æsar. Ég sem einstaklingur hef því mátt mín lítils í þeim átökum sem hafa staðið um málið, meðal annars vegna afskipta valdafólks í stjórnmálum.

En hvað skýrir ákvörðun lögreglunnar? Jú, málið er í raun fallið á tíma, fyrnt, meðal annars vegna þess hvernig sakborningar nýttu sér allar leiðir til að tefja og afvegaleiða rannsókn lögreglu. Höfum í huga að rannsóknin beindist að alvarlegum brotum á friðhelgi einkalífs míns meðal annars með því að hnýsast í, afrita, sýna, skýra frá, birta og dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni mín. Allt var þetta gert blygðunarlaust og enginn getur hafnað aðild sakborninganna,“ segir Páll í færslu sinni.

Varðaði ekki fréttaskrif

Þá nefnir hann að rannsókn lögreglu hafi aldrei á nokkrum tímapunkti snúist um fréttaskrif blaðamannanna og vitnar hann í tilkynningu lögreglunnar þar sem fram kom að rannsóknin hafi aðallega snúist um hverjir afrituðu síma Páls og hvar og hvernig það var gert.

„Rannsókn lögreglu beindist aðallega að því að reyna að upplýsa hverjir afrituðu síma mínn, hvar og hvernig það var gert. Það liggur fyrir að birtar voru fréttir upp úr einkagögnum af símtækinu s.s. tölvupóstum, skjölum og spjallþráðum spjallforrita. Þeir gengu á skítugum skónum um mín persónulegu gögn.“

Síðasta orðið ekki verið sagt

„Að endingu var það mat Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni mín, brotaþolans. Sakborningarnir neituðu að tjá sig hjá lögreglu, höfnuðu allri samvinnu og afhentu lögreglu engin gögn. Lögreglunni tókst ekki að afla fullnægjandi stafrænna gagna þar sem þeim hafði verið eytt og réttarbeiðnir sem sendar voru erlendum tölvuþjónustu fyrirtækjum skiluðu ekki árangri, þar var þögnin ein og íslensk lögregluyfirvöld hundsuð,“ segir Páll í færslunni.

Þá segir hann endalausan tafaleik sakborninganna og kerfisbundnar blekkingar skilað sér í því að lögreglan taldi málið fallið á tíma og vera fyrnt.

„Eftir stend ég og fjölskylda mín sem hefur orðið að þola hluti sem ég gæti ekki óskað verstu óvinum mínum. Ekki fengum við það réttlæti sem við töldum okkur eiga inni. En síðasta orðið hefur ekki verið sagt í þessu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka