„Þetta má aldrei gerast aftur“

Þórður Snær Júlíusson.
Þórður Snær Júlíusson. mbl.is/Hari

Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og Heimildarinnar, segir allt það ferli sem fylgdi byrlunar- og símamálinu hafa verið einstakt í sögu Íslands og lýðræðislega stórhættulegt. Hann segir að málið hafi breytt sýn sinni á samfélagið og haft áhrif á að hann hætti sem ritstjóri Heimildarinnar.

Þetta segir Þórður í færslu sem hann skrifar á Facebook.

Greint var frá í dag að embætti lög­reglu­stjór­ans á Norður­landi eystra hafi tekið ákvörðun um að hætta rann­sókn í máli er varðar meinta byrlun, af­rit­un á upp­lýs­ing­um af síma ein­stak­lings og dreif­ingu á kyn­ferðis­legu mynd­efni. Þórður var einn af sjö einstaklingum sem fengu réttarstöðu sakbornings í málinu.

Segir Þórður að sér hafi verið haldið í stöðu sakbornings í 961 dag og á þeim tíma hafi aðeins ein skýrsla verið tekin af honum, í ágúst 2022.

Segir hann ótrúlegar lygasögur hafa verið spunnar utan á málið og súrrealískar staðhæfingar settar fram sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum.

Einstakar aðfarir

„Ég, og kollegar mínir, fengum þessa réttarstöðu vegna þess að hluti okkar skrifaði fréttir um það hvernig hópur fólks, með vitund og vilja stjórnenda eins stærsta fyrirtækis landsins, vann skipulega að því að reyna að hafa æruna, heilsuna og lífsviðurværið af blaðamönnum sem fjölluðu um fyrirtækið. Hvernig hópurinn reyndi að hafa áhrif á kosningar í stéttar- og fagfélagi blaðamanna. Hvernig hann skipulega reyndi að rægja færeyska blaðamenn,“ segir í færslu Þórðar sem heldur áfram.

„Lagði á ráðinn um að setja fram tilefnislausa kæru á hendur uppljóstrara gagngert til að reyna að koma í veg fyrir að hann bæri vitni gegn fyrirtækinu. Ætluðu að draga úr trúverðugleika rithöfunda sem hafði gagnrýnt fyrirtækið, Hafa áhrif á hverjir leiddu lista stjórnmálaflokks, planaði víðtæka gagnasöfnun um stjórn félagasamtaka sem berst gegn spillingu og hvernig bregðast átti við gagnrýni frá sitjandi seðlabankastjóra á stríðsrekstur fyrirtækisins gagnvart nafngreindu fólki.“

Segir hann aðfarir hópsins hafa verið einstakar í sögu Íslands og lýðræðislega stórhættulegar.

Harðorður gagnvart aðförum lögreglunnar

„Með því að ráðast í þessa rannsókn sem átti sér aldrei nokkurn grundvöll, eftir handriti eins þeirra sem við fjölluðum um og með opinberum stuðningi ákveðinna stjórnmálamanna, og viðhalda henni í allan þennan tíma sem raun ber vitni, var aftur reynt að hafa af okkur æruna, heilsuna og lífsviðurværið.“

Þá er Þórður harðorður gagnvart lögreglunni á Norðurlandi eystra og kallar Facebook-færslu hennar frá því í dag, þar sem lögreglan greindi frá að búið væri að fella málið niður, ömurlega tilraun til að réttlæta aðfarir sínar gagnvart blaðamönnum. Segir hann það gera svartan blett á réttarríkinu enn stærri.

Málið hafði áhrif á ákvörðun hans um að breyta til

„Mér er mjög létt yfir því að þessari aðför sé lokið, en ég er líka mjög reiður yfir því sem hefur fengið að eiga sér stað. Málið hefur breytt sýn minni á samfélagið og hafði áhrif á að ég ákvað að skipta um kúrs í lífinu. Það hefur sýnt mér að ef maður stendur ekki upp og berst fyrir því sem er réttlátt, sanngjarnt og satt, jafnvel þótt að valdamesta fólk landsins sé mótaðilinn, þá gerir það enginn fyrir mann,“ segir Þórður. Hann hætti nýlega sem annar ritstjóri Heimildarinnar, um ári eftir að Kjarninn og Stundin sameinuðust.

„Þetta má aldrei gerast aftur og ég ætla að beita mér að öllu afli fyrir því,“ segir hann að lokum í færslunni.

Þórður neitaði að tjá sig frekar um málið í samtali við mbl.is og vísaði einungis á færslu sína. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka