Til stendur að loka bílaplönum við Reynisfjöru í tvo daga í næstu viku vegna malbikunar og götumálunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá rekstraraðilum Reynisfjöru.
Töluverð röskun verður á þjónustu í Reynisfjöru dagana 3.-4. október vegna fyrrnefndra framkvæmda. Tímabundið bílastæði verður við Reyniskirkju en frá kirkjunni eru tveir kílómetrar niður í Reynisfjöru.
Reynishverfisvegur suður frá Reyniskirkju verður lokaður fyrir almennri umferð.
Fram kemur að stórar rútur, 19 manna og stærri, muni geta lagt á efra plani við Reynisfjöru 3. október en ekki 4. október. Þá þurfi þær líka að leggja við Reyniskirkju.
„Í júlí 2023 hófu landeigendur í Reynishverfi að innheimta þjónustugjöld í Reynisfjöru, innifalið í þessu þjónustugjaldi er m.a. bílastæði, salernisaðstaða, sorphirða, viðhald göngustíga, snjómokstur, merkingar og fleira,“ segir í tilkynningunni.
„Á þessu tímabili hefur ýmis vinna farið fram svo sem bætt við öðru bílaplani, göngustígum, salernum, auk hönnunar og skipulagsvinnu. Þann 16. september síðastliðinn hófust framkvæmdir vegna malbikunar á bílaplönum. Það var ekki tekið þjónustugjald af gestum meðan mesta raskið stóð yfir 16.-26. september.“