„Ég er búinn að vera í viku hérna á Tenerife og var að róta í bakpokanum mínum sem ég tók með gegnum öryggisleit,“ segir Arnar Páll Hauksson, fyrrverandi fréttamaður Ríkisútvarpsins sem margir minnast enn fremur sem fréttaritara þess sama miðils í Kaupmannahöfn fyrir nokkuð löngu. Arnar Páll varð fyrir reynslu sem skall á honum af fullum þunga eftir ferðalagið.
„Þetta er góður bakpoki, Fjällräven, tekur tölvu og allt saman sem ég þarf að taka með mér,“ segir fréttamaðurinn fyrrverandi frá en á hann runnu tvær grímur þegar hann dró eldhúshníf úr þvottekta stáli upp úr pokanum.
„Allt í einu gríp ég í þennan hníf sem ég náttúrulega kannast vel við að heiman,“ segir Arnar Páll og blaðamaður kannast við borðbúnað með svipuðu mynstri af eigin heimili.
„Við fórum gegnum öryggisleitina á Íslandi, reyndar lenti ég í eiturlyfjaprófinu þar, en ekkert meira. Svo vorum við tíu daga í Lissabon [höfuðborg Portúgals] og flugum þaðan til Tenerife með millilendingu í Madrid og í Lissabon fór pokinn aftur í gegnum skoðun,“ segir hann frá.
Arnar Páll og kona hans, Aldís Magnea Norðfjörð, fagna nú sjötugsafmæli hans á Tenerife en millilending þeirra í Madrid krafðist þess ekki að þau færu gegnum þriðju öryggisleitina, þar fóru þau aldrei út af svokölluðu transit-svæði flugvallarins.
„Mér fannst það mjög skrýtið að hnífurinn skyldi smjúga í gegn,“ segir Arnar Páll sem, eins og fjöldi annarra flugfarþega um gervalla heimsbyggðina, mátti sæta ítarlegri öryggisleit áður en honum var hleypt um borð í flug – nokkuð sem sumum þykir orðið hvimleið byrjun allra flugferðalaga eftir 11. september 2001, en fyllir aðra flugfarþega öryggiskennd þar sem þeir telja sig geta sest um borð öruggir gagnvart hryðjuverkamönnum og öðrum sem misgott gengur til ætlunar.
Er það öryggi þá falskt þegar sjötugur fyrrverandi fréttamaður frá Íslandi getur valsað gegnum tvær öryggisleitir með stálsleginn eldhúshníf sem hann veit ekki af í bakpoka sínum?
„Einu sinni ætlaði ég frá Víetnam og var með skothylki úr byssu sem Vietcong-liðar notuðu í stríðinu þar, AK-47-rifflinum. Ég var ekki með það í handfarangri heldur í töskunni sem ég skráði inn. Þar varð allt vitlaust og rauð ljós blikkuðu þótt þetta væru ekki virk skothylki,“ rifjar Arnar Páll upp.
Hefurðu þá minni trú á öryggisleitinni, göngum við í gegnum sýndaröryggisskoðun?
„Ég ætla ekki að fara að gagnrýna það en ég játa að mér varð órótt, það er kannski ekkert voðalega traustvekjandi að komast með svona hníf til Tenerife. Ég hefði kannski ekkert haft orð á þessu ef ég hefði bara farið gegnum eina leit, en ég fer í gegnum tvær öryggisleitir og þessar leitir virka eins og þær séu mjög strangar og fólk eigi að geta treyst á þær,“ segir fréttamaðurinn fyrrverandi, Arnar Páll Hauksson, að lokum við mbl.is.
Blaðamaður lætur þá frásögn flakka með hér í lokin að eitt sinn ferðaðist faðir hans sálugi með SS-lifrarpylsu til Bandaríkjanna, nógu saklaus matvæli þótt ekki sé lifrarpylsan allra, og fékk þá að reyna hjá landamæravörðum JFK-flugvallarins í New York að með sínum innvortis fitukeppum og mikla þéttleika lítur SS-lifrarpylsa nákvæmlega út eins og semtex-sprengiefni á skjá gegnumlýsingartækja.
Eftir miklar útskýringar grandvars heimilislæknis á sjötugsaldri slíðruðu landamæraverðir skotvopn sín og létu gott heita, en ekki er allt sem sýnist á skjá gegnumlýsingarvéla...og sumt virðist bara alls ekki sjást.