Furðar sig á ítarlegum lýsingum á Facebook

Sigríður Dögg Auðunsdóttir furðar sig á vinnubrögðum embættis lögreglunnar á …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir furðar sig á vinnubrögðum embættis lögreglunnar á Norðurlandi-Eystra. Páley Borgþórsdóttir er lögreglustjóri. Samsett mynd

Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, gagnrýnir rannsókn lögreglu á blaðamönnum í tengslum við byrlunarmál Páls Steingrímssonar skipstjóra á Facebook-síðu sinni.

Sigríður furðar sig meðal annars á þeim ítarlegu skýringum sem gefnar voru þegar mál lögreglustjórans á hendur blaðamönnum og öðrum sakborningi var látið niður falla.

Upphaflega snýr málið að gögnum úr síma Páls sem komið var á fjölmiðla sem birtu fréttir byggðar á þeim gögnum.

Sú ítarlega tilkynning sem lögreglan á Norðurlandi eystra birti á samfélagsmiðlinum Facebook er ekki síst óvenjuleg fyrir þær sakir að afar sjaldgæft er að slíkar yfirlýsingar séu birtar við niðurfellingu mála.

Lögregla lýsi afstöðu sinni

Í henni er meðal annars gert að því skóna að blaðamenn og annar sakborningur hafi gerst brotlegir við lög en að sönnunarbyrði hafi reynst erfið í málinu.

„Lögreglan fer þar með ítarlegum hætti í gegnum atriði í rannsókn málsins og telur ástæðu til þess að lýsa afstöðu sinni til sakarefnis sakborninga hvað varðar einkagögn sem fréttir voru birtar upp úr: „Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum.“ Það getur varla talist lögreglu sæmandi að tjá sig með þessum hætti - eftir að órökstudd, óþörf og tilgangslaus rannsókn hennar á blaðamönnum leiðir í ljós að ekki er tilefni til þess að halda henni áfram - en það er svo sem í takt við allt annað sem lögreglan hefur aðhafst í þessu máli,“ segir í tilkynningu Sigríðar Daggar á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert