Spyr Þórdísi um apaflutninga

Bjarni lagði fram fyrirspurn fyrir Þórdísi um apaflutninga flugfélagsins Bláfugls, …
Bjarni lagði fram fyrirspurn fyrir Þórdísi um apaflutninga flugfélagsins Bláfugls, en flogið er með lifandi apa frá Asíu og Afríku til Evrópu og í gegnum Keflavíkurflugvöll áleiðis til Norður-Ameríku. Dýrin eru notuð við allskonar vísindatilraunir. Samsett mynd

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn fyrir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um apaflutninga sem flugfélagið Bláfugl hefur stundað á undanförnum árum frá löndum í Asíu og Afríku, meðal annars með millilendingu á Íslandi á leiðinni yfir hafið til Bandaríkjanna og Kanada.

Slíkir apar hafa verið ræktaðir í Kína og ýmsum löndum í Asíu og Afríku og eru notaðir við alls konar vísindatilraunir víða um heim.

Kína hefur hins vegar að mestu lokað á slíkan útflutning og jókst þá ræktunin í öðrum löndum.

Dýrin sótt til Máritíus, Víetnam og Kambódíu

Í þætti Kveiks frá í mars á þessu ári var greint frá því að flugfélagið Bláfugl hefði síðan um sumarið 2023 farið sextán ferðir til Máritíus, Víetnam og Kambódíu, sem eru utan hefðbundins leiðarkerfis félagsins, í þeim tilgangi að sækja dýr sem flutt eru til Evrópu eða Bandaríkjanna.

Spyr Bjarni hvort að ráðuneytinu hafi verið kunnugt um flutningana og hvort leyfi hafi verið gefið fyrir slíkum flutningi og þá á hvaða grundvelli það leyfi hafi verið veitt.

Þá spyr hann hvort gengið hafi verið úr skugga um hvort uppruni apanna væri rekjanlegur og hvort dýrin væru laus við sjúkdóma fyrir flutninginn. Einnig spyr hann um umhirðu og velferð dýranna og hvort upplýsingar séu um hvers konar vísindatilraunir bíði apanna.

Að lokum spyr hann hvort ráðuneytið telji apaflutningarnir, meðferð dýranna og örlög apanna standist íslenska löggjöf og hvort ráðuneytið hyggi á að fara yfir siðferðileg álitamál sem tengjast slíkum flutningum.

Gætu borið sjúkdóma og sýkla

Í fyrrnefndum þætti varaði Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, við því að apar sem þessir gætu borið berkla og aðra sýkla og að dæmi væri um það á undanförnum árum.

Þá sögðust Samgöngustofa og sóttvarnalæknir hjá embætti landlæknis ekki hafa með flutningana að gera nema þá ef Matvælastofnun óskaði eftir því. Þá sagðist Matvælastofnun ekki hafa með málið að gera og er flugfélögum ekki skylt að upplýsa um hvað sé um borð í vélum sem hér millilenda. Enda á ekkert að fara inn eða úr vél, annað en eldsneyti og vistir fyrir áhöfn.

Í svari Bláfugls til Matvælastofnunar eftir að málið kom upp sagði félagið að um væri að ræða átta flug þar sem farið var í gegnum Keflavík frá september 2023 til febrúar í ár. Engin dýr hafi verið tekin úr vélinni, eða fraktrými opnað. Þá hafi vélarnar verið sótthreinsaðar eftir afhleðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert