Stefán ætlar ekki að tjá sig um byrlunarmálið

Stefán kveðst ekki þurfa að tjá sig um málið.
Stefán kveðst ekki þurfa að tjá sig um málið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, vill ekki tjá sig um ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra um að fella niður rannsókn í byrlunar- og símastuldsmálinu svokallaða.

„Málið snýr að rannsókn lögreglu sem lokið er með niðurfellingu málsins og þar með lokum þess, nema þeirri ákvörðun verði snúið við,“ skrifar Stefán í skilaboðum til blaðamanns en tekur fram að það sé ekkert tengt þessu máli sem hann þurfi að ræða.

Eins og fyrr segir hefur lögreglan á Norðurlandi eystra fellt niður rannsókn á byrlun, símastuldi, afritun á einkagögnum og dreifingu á kynferðislegu myndefni eftir liðlega þriggja ára rannsókn. Sjö sakborningar, þar af sex blaðamenn, eru því ekki lengur til rannsóknar.

Játaði byrlun og símastuld

Í rökstuðningi lögreglu fyrir niðurfellingunni er málavöxtum lýst:

Brotaþola voru byrluð lyf af fyrrverandi eiginkonu, en hún stal svo síma hans þar sem hann lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi og kom að sögn í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins, sem aftur afrituðu símann. RÚV gerði sér þó ekki fréttamat úr gögnunum en kom þeim áleiðis til Stundarinnar og Kjarnans, sem það gerðu.

Fram kemur að konan hafi játað byrlun og símastuld, en slíkur vafi leiki á um ásetning og sakhæfi sakbornings á verknaðarstundu að hætta beri rannsókn á því sakarefni.

Framburður hennar er sagður hafa verið „stöðugur allan tímann“ um að hún hafi afhent fréttamönnum RÚV símann og að þar hafi hann verið afritaður. Sömuleiðis að hún hafi greint frá því hver ætti símann og hvernig hún hefði komist yfir hann.

Segir að allir gætu hafa gerst sekir

Lögregla telur að allir sakborningar gætu hafa gerst sekir um brot á friðhelgi einkalífs. Ekki hafi hins vegar tekist „að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola“.

Það virðist að lokum hafa strandað á því að samskiptagögnum á síma konunnar hafi verið eytt, en erlendar netþjónustur sinntu ekki réttarbeiðnum.

Fjölmiðlamenn í hópi sakborninga eru allir sagðir hafa verið ósamvinnuþýðir, þótt ekki hafi verið spurt um heimildarmenn, enda hafi það legið fyrir frá upphafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert