Tap RÚV 470 milljónir króna á árinu

Aðhaldsaðgerðir sem boðaðar voru í rekstri Ríkisútvarpsins fyrr á árinu hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Afkoma RÚV í maí til júlí olli vonbrigðum og var lakari en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Tapið nemur um 470 milljónum króna það sem af er ári en nú er búist við að 200 milljóna tap verði af rekstrinum í ár að óbreyttu. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Ríkisútvarpsins frá 28. ágúst sem birt var í gær.

Morgunblaðið hefur fjallað um gat í fjárhagsáætlunum ársins hjá RÚV sem var um tíma ríflega 280 milljónir. Gatið hefur meðal annars verið rakið til hagræðingarkröfu, vanmats á launagreiðslum og minni auglýsingatekna en rekstraráætlun gerði ráð fyrir. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri greindi frá því í svari til blaðsins í byrjun júlí að hagræðingaraðgerðirnar næmu um 300 milljónum króna. Þær fælu í sér endurmat á ýmsum tekju- og útgjaldaforsendum, starfsfólki hefði verið fækkað með því að draga úr endurráðningum auk annarra hagræðingaraðgerða.

Ekki gert ráð fyrir forsetakosningum

Í bráðabirgðauppgjöri sem kynnt var á áðurnefndum stjórnarfundi og kynningu fjármálastjóra kom fram að lakari afkomu megi að hluta til rekja til aukins kostnaðar fréttastofu og kostnaðar við dagskrárgerð sjónvarps. „Af einstökum liðum vegur þyngst kostnaður vegna forsetakosninganna en við vinnslu rekstraráætlunar ársins lá ekki fyrir að kosið yrði á yfirstandandi ári né að umfangið í kringum kosningarnar yrði jafn mikið og raun bar vitni og féll sá kostnaður að mestu leyti til í maí og júní. Þá féll einnig til talsverður umframkostnaður vegna Eurovision,“ segir í fundargerð. Þar segir jafnframt að lakari afkoma kalli á að farið verði í frekari ráðstafanir til að draga eins og kostur er úr neikvæðri afkomu í ár. Stjórn Ríkisútvarpsins áréttaði að niðurstaðan fyrstu sjö mánuði ársins væri ekki í samræmi við væntingar, ekki síst aukin frávik frá uppfærðri áætlun á tímabilinu maí til júní. Vísað er í fyrri fundi stjórnar þar sem kynnt hafi verið lakari afkoma og að mótvægisráðstafanir hafi ekki verið kynntar með nákvæmum hætti. Ákveðið var á umræddum fundi að stjórn fengi nánari upplýsingar um aðhaldsgerðir á næsta stjórnarfundi.

Hár kostnaður við íþróttaefni

Rekstrarafkoma fyrstu sjö mánuði ársins hjá RÚV var neikvæð um 470 milljónir króna. Sú tala gefur þó ekki rétta mynd af áætlaðri afkomu ársins að því er fram kemur í fundargerð. Annars vegar sé rekstrarafkoma jafnan lakari fyrri hluta ársins en þann síðari en hins vegar voru háar gjaldfærslur á sýningarrétti á íþróttaefni í júní og júlí, eða um 366 milljónir króna. Auglýsingatekjur voru nánast á pari við endurskoðaða áætlun. Talsverð umframútgjöld eru í rekstri sjónvarps, alls 46 milljónir, sem skýrast meðal annars af Söngvakeppninni og Eurovision. Innkoma vegna símakosningar og miðasölu á Söngvakeppnina var hins vegar umfram áætlun. Ekki kemur fram hver umframútgjöld fréttastofu RÚV voru en fram kemur að þau megi nær alfarið rekja til ófyrirséðs og aukins launa- og verktakakostnaðar vegna eldsumbrota á Reykjanesi auk útgjalda vegna forsetakosninga. Þá er framleiðsla 21 milljón yfir áætlun en boðað að það ætti að jafnast út yfir árið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert