Býst við því að Svandís verði „krýnd“

Stefán ræðir við mbl.is um komandi landsfund.
Stefán ræðir við mbl.is um komandi landsfund. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Ekki er líklegt að Svandís Svavarsdóttir innviðaráherra fái mótframboð í formann Vinstri grænna á komandi landsfundi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður flokksins, verður að teljast hafa forskot í varaformannsslagnum.

Þetta segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

„Ég á voða bágt með að sjá annað heldur en að hún verði þarna krýnd. Það yrði kannski málamyndamótframboð en ég get ekki séð það,“ segir Stefán og bætir því við að það sé ekki stíll Vinstri grænna að vera með innanflokksátök þegar kemur að þessum efnum.

Landsfundur verður haldinn næstu helgi og tveir hafa til­kynnt um fram­boð í vara­formann. Eru það Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, starf­andi formaður flokks­ins, og Jó­dís Skúla­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna.

Guðmundur með töluvert forskot

Spurður hver sé sigurstranglegri segir Stefán að Guðmundur, oft kallaður Mummi, hljóti að vera með töluvert mikið forskot.

„Spurningin fyrir mér fyrir fram var kannski meira hvort að hann hefði áhuga á að stíga aftur þarna til baka. Ég held að það hefði engum fundið það neitt skrýtið þó að hann hefði sagt: „Heyrðu ég er búinn að gera þetta“.

Það hefði ekkert veikt hans stöðu sem ráðherraefni síðar. Eða ég get ekki séð það. En hann kýs að gera þetta og hann hlýtur þá að vera mjög sigurstranglegur,” segir Stefán.

Stefán segir aðspurður að eflaust séu skiptar skoðanir á því hvort að næg breyting sé á forystunni ef að Svandís og Guðmundur munu leiða flokkinn.

„En þetta eru okkar sterkustu stjórnmálamenn í dag og ég held að það séu aðrar leiðir til að sinna nýliðun heldur en í gegnum formanns- eða varaformannsembættið,“ segir Stefán.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur ákveðið að gefa …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í varaformann. mbl.is/Karítas

Yrði undrandi ef tillagan yrði samþykkt

Hópur fólks í VG hefur lagt fram tillögu þess efnis að Lands­fund­ur Vinstri grænna álykti að tíma­bært sé að slíta rík­is­stjórn­ar­sam­starfi Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar.

Telur þú að þessi tillaga verði samþykkt?

„Ég yrði pínulítið undrandi á því. Svona tillögur hafa verið boðaðar í tengslum við flokksráðsfundi og ýmist bara ekki komið fram eða verið útvatnaðar á þann hátt að þær missa allt bit. En ég held að það sé alveg fínt að menn ræði það,“ segir Stefán.

Hann segir samt að það sé ekki hlaupið að því að ganga til kosninga á næstunni. Það eigi ekki bara við um stjórnarflokkanna heldur líka stjórnarandstöðuna. Allir flokkar eiga eftir að stilla upp á lista og tíma taki að undirbúa framboð.

„Þá eru nú helvíti margir stjórnmálamenn“

„Margir flokkar eru að sjá fram á talsverða endurnýjun. Menn eru bara að rekrútera kandídata [fá nýja liðsmenn] fyrir opnum tjöldum á þann hátt sem maður hefur nú ekki séð áður,“ segir hann og vísar í Jón Gnarr og Þórð Snæ Júlíusson.

Jón er genginn í Viðreisn og Þórður í Samfylkinguna. Um Þórð segir hann:

„Gengur í stjórnmálaflokk og setur síðan Twitter-status um að hann sé búinn að mæta í sitt fyrsta viðtal sem stjórnmálamaður. Þá spyr ég mig, bíddu hvenær verður maður stjórnmálamaður? Þá eru nú helvíti margir stjórnmálamenn á Íslandi,“ segir hann og hlær.

Þórður Snær Júlíusson er genginn í Samfylkinguna.
Þórður Snær Júlíusson er genginn í Samfylkinguna. mbl.is/Styrmir Kári

Hefði sjálfur ekki stært sig af þessu

Hann nefnir líka í þessu samhengi Pírata og Miðflokkinn. Miðflokkurinn var að stofna ungliðahreyfingu og hefur Stefán sitthvað um þann félagsskap að segja.

„Miðflokkurinn blæs í trompet yfir því að vera búinn að kjósa nýja ungliðahreyfingu með sundkappa. Ungliðahreyfingu sem inniheldur reyndar fimm stjórnarmeðlimi, þar af tvær bekkjarsystur í framhaldsskólanum í Grundarfirði. Eins og ég segi, það er eitthvað sem maður hefði nú kannski ekki alveg stært sig af ef maður væri í þessu sjálfur,“ segir Stefán.

Það stefnir í ágæta mætingu á landsfundinn en Stefán segir það ekki endilega óeðlilegt í ljósi þess að kosningaár er fram undan og vegna þess að fundurinn er haldinn í Reykjavík.

Anton Sveinn McKee Ólympíufari og formaður Freyfaxa, er formaður ungliðahreyfingar …
Anton Sveinn McKee Ólympíufari og formaður Freyfaxa, er formaður ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert