Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að ef Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu koma ekki með tillögu að lausn eða lagfæringu á mönnunarvandanum á hjúkrunarheimilum á fundi félaganna á mánudag mun Efling slíta viðræðum. Þá hefjist undirbúningur aðgerða í kjölfarið.
Þetta segir hún í samtali við mbl.is.
„Samninganefnd Eflingar hefur komist að þeirri niðurstöðu, og það var ákvörðun sem við tókum á föstudaginn, um að slíta viðræðum og taka þá ákvarðanir um allt sem að því fylgir,“ segir Sólveig Anna.
Fundur félaganna verður haldinn á mánudag hjá ríkissáttasemjara en deilunni var vísað til embættisins í síðasta mánuði.
Eru það þá verkfallsaðgerðir sem verður farið í?
„Við munum þá halda áfram að funda hjá samninganefndinni og ræða auðvitað þá möguleika sem að við höfum en já, að sjálfsögðu þýðir það að ef viðræðum er slitið að þá hefst undirbúningur aðgerða.“
Sólveig Anna segir marga fundi hafa verið haldna vegna deilunnar og að samninganefnd Eflingar hefði hafið undirbúning fyrir viðræðurnar snemma í sumar.
Hvernig finnst þér andrúmsloftið vera, ertu bjartsýn fyrir fundinn á mánudaginn?
„Ég er raunsæ. Ég vona að sjálfsögðu að viðsemjendur okkar komi með eitthvað sem að er nægilega gott til þess að það sé þá hægt að halda áfram að vinna með þær hugmyndir. En fari svo að það gerist ekki þá erum við tilbúin til þess að gera það sem við getum gert til þess þá að nálgast lausnir í málinu.“
Segir hún málið vera risastórt og mjög áhugavert enda um að ræða langstærsta viðsemjanda Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Um 2.300 manns séu í Eflingu sem starfi hjá hjúkrunarheimilunum og séu langstærsti hluti þeirra konur eða um 82,5%, að sögn Sólveigar.
„Það eru til í það minnsta þrjár skýrslur, nú síðast Gylfaskýrslan sem kom út árið 2021, þar sem sýnt er fram á það með mjög skýrum hætti hversu vanfjármagnað þetta módel er og hversu raunveruleg undirmönnunin er,“ segir Sólveig og bætir við:
„Til dæmis er það svo að það eru örfá hjúkrunarheimili sem að ná að uppfylla viðmið hjúkrunarfræðinga að störfum og það meðal annars hefur gert það að verkum að sífellt fleiri störf, sífellt meiri ábyrgð, sífellt meira álag er einfaldlega sett á herðar Eflingarfólks til þess að geta látið hlutina ganga.“
„En að sjálfsögðu geta hlutir ekki gengið endalaust með þessum hætti og við ætlum ekki að skrifa undir fjögurra ára kjarasamning með mjög hófstilltum launalið nema að komið sé til móts við kröfur okkar.“