Lítið jökulhlaup er hafið í Skálm en rafleiðni byrjaði að hækka í gær.
„Þetta er bara lítið. Mjög lítið,“ segir Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Þetta sé ekki í líkingu við jökulhlaupið sem varð undir lok júlí en það var talsvert stærra.
„Rafleiðni hefur farið hækkandi í Skálm frá um hádegi í gær og mælist nú um 248 µS/cm ásamt vatnshæðaraukningar. Því viljum við biðja fólk um að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarvegnum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu. Engar tilkynningar um brennisteinslykt hafa enn borist VÍ,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
„Mögulega gæti verið að um sé að ræða hægan leka jarðhitavatns undan jöklinum. Mögulega á rennsli þó eftir að aukast enn frekar og þróast út í jökulhlaup. Náttúruvárvakt VÍ mun halda áfram að vakta svæðið.“