Kosningabarátta Viðreisnar formlega hafin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fór um víðan völl í …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fór um víðan völl í ávarpi sínu á haustþingi flokksins. mbl.is/Ólafur Árdal

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, segir upplausnaástand vera í stjórnmálum og að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi gefist upp á hlutverki sínu. Segir hún kosningabaráttuna formlega hafna.

Þetta kom fram í ávarpi Þorgerðar á haustþingi Viðreisnar sem stendur nú yfir í í Hlé­garði í Mos­fells­bæ.

Þorgerður fór um víðan völl í ávarpi sínu. Nefndi hún að kjarnamál Viðreisnar væru einfaldlega almenn skynsemi og réttlætiskennd og að flokkurinn vildi létta fólki róðurinn.

Þá kom hún inn á Evrópusambandið og sagði að spyrja ætti þjóðina hvort halda ætti áfram með aðildarviðræður og klára þær. Hætta ætti rifrildum um bók sem ekki hefur verið skrifuð og leyfa þjóðinni að marka sína framtíð.

Börn eigi ekki að vera á biðlistum

Einnig ræddi Þorgerður efnahagsástand landsins. Sagðist hún hafa undafarnar vikur ferðast mikið um landið og hitt fólk sem ætti erfitt með að ná endum saman og hefðu áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni.

„Þrátt fyrir að þau hafi gert allt eftir bókinni og ef allt væri eðlilegt þá ætti þau bara að hafa það ansi gott,“ sagði formaðurinn.

Sagðist hún þá einnig á ferðalagi sínu hafa hitt fólk lýsti yfir áhyggjum af þróun menntamála í landinu, heilbrigðiskerfinu og aukinni tíðni í ofbeldishegðun ungmenna.

„Við sjáum að biðlistar barna, nýjustu tölur, þeir eru að lengjast og lengjast og við segjum alveg skýrt, allir þingmenn flokksins hafa sagt það, börn í siðuðu samfélagi eiga ekki að vera á biðlistum.“

Formaðurinn segir krónan þjóni ekki lengur hagsmunum almennings í landinu.
Formaðurinn segir krónan þjóni ekki lengur hagsmunum almennings í landinu. mbl.is/Ólafur Árdal

Sinnuleysi í ríkisstjórn

Sagðist formaðurinn hafi hitt sífellt fleira fólk sem hafi raunverulega áhyggjur af því að ríkisstjórnin hafi gefist upp á hlutverki sínu og gefist upp á brýnum verkefnum sem blasi við íslensku samfélagi.

Nefndi hún að uppgjöf ríkisstjórnarinnar sé átakanlega lýsandi og nefnir Þorgerður umfjöllun um vinnumannsal og misbeitingu á íslenskum vinnumarkaði sem dæmi.

„Fyrir sex árum þá dregur Kveikur fram þennan hræðilega veruleika og nú aftur sex árum síðar birtist aftur þáttur og það hefur ekkert breyst. Jafnvel til hins verra. Við erum með sömu ríkisstjórnina. Hún skynjar ekki sína ábyrgð og gerir ekkert. Þetta er ömurlegt dæmi að mínu mati um sinnuleysi sem að fylgir þessari kyrrstöðu ríkisstjórnar og það er hættulegt.“

Breyta þurfi um gjaldmiðil

„Við í Viðreisn, við erum nefnilega með rödd sem er svolítið ólík öðrum. Við erum dálítið sér á báti á hinum pólitíska ás. Við tölum óhrædd fyrir frjálsum markaði og sterku efnahagskerfi í opnu alþjóðlegu samfélagi og leggjum okkur fram við að tryggja að kerfin okkar séu einföld, þau séu sanngjörn og þau grípi fólkið okkar í sterkt, þétt velferðarnet þegar á móti blæs.

Við erum eini flokkurinn á þingi sem hefur nægjanlegt sjálfstraust til að standa með þeirra stefnu að hér þurfi einfaldlega að skipti um gjaldmiðil sem þjónar ekki lengur hagsmunum almennings í landinu,“ sagði Þorgerður og uppskar mikið lófatak í kjölfarið.

Jón Gnarr mun bjóða sig fram til alþing­is­kosn­inga fyr­ir hönd …
Jón Gnarr mun bjóða sig fram til alþing­is­kosn­inga fyr­ir hönd Viðreisn­ar á næsta kjör­tíma­bili og var mættur á haustþingið. mbl.is/Ólafur Árdal

„Gamalt vín á nýjum belgjum“

Sagði hún það mikilvægt að Viðreisn sé í ríkisstjórn sem standi í lappirnar þegar reyni á almannahagsmuni og standi með þeim og skaut hún föstum skotum að öðrum flokkum.

Kallaði hún t.a.m. Sjálfstæðisflokkinn litla Miðflokkinn.

„Fyrst ég er að minnast á aðra flokka, ekkert mikið en bara pínulítið, að þá er auðvitað kúnstugt að fylgjast bæði með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokknum - litla Miðflokknum - en þessir tveir flokkar eiga það auðvita fyrst og fremst sameiginlegt að kunna engar aðrar lausnir en að hækka skatta og þenja út ríkisbáknið. Það hefur nefnilega Sjálfstæðisflokkurinn sýnt með verkum sínum og Samfylkingin núna með nýju stefnuskránni sinni sem er reyndar bara gamalt vín á nýjum belgjum.“

Formaðurinn sagðist hafa hitt marga á ferðalagi sínu sem lýstu …
Formaðurinn sagðist hafa hitt marga á ferðalagi sínu sem lýstu yfir mismunandi áhyggjum af stöðu sinni og þjóðfélaginu. mbl.is/Ólafur Árdal

Prófkjör komandi verkefni 

Sagði Þorgerður að komandi verkefni flokksins sé núna að vinna og ákveða það á næstu vikum hvernig haga skuli prófkjörum og uppstillingum eins og svæðisráðin síðan sjálf ákveða.

„En þegar ég horfi hér yfir salinn þá verð ég nú að segja að ég er ekki bara glöð. Ég er líka dálítið meyr en ég sé líka ákefðina, ég sé líka sannfæringakraftinn, ég sé þennan frumkraft til þess að gera meira og gera betur og það er nákvæmlega það sem að við þurfum að virkja í dag. Ekki á morgun. Í dag. Því hver einasti dagur sem líður frá þessum degi, hann þokar okkur nær viðreisnarsigri í næstu kosningum,“ sagði formaðurinn og lauk ávarpi sínu með því að segja að nú væri kosningabaráttan formlega hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert