„Nú nálgast lægð okkur úr suðri og verður miðja hennar komin nærri suðurströndinni í nótt og fer hún til norðausturs með austurströndinni á morgun“.
Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Lægðin stjórnar veðrinu á landinu um helgina, en segir að hún sé grunn, „sérílagi miðað við það sem lægðir við Ísland geta orðið á þessum árstíma“.
Í dag er því útlit fyrir austan og suðaustan 5-13 m/s og rigningu með köflum. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi og dálítil slydda eða snjókoma þar eftir hádegi.
Hiti er frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, að 8 stigum á Suðvesturlandi.
Í fyrramálið eru horfur á austan 5-13 m/s og víða rigning eða slydda, einkum austanlands.
Norðlægari síðdegis á morgun, dregur úr úrkomu og rofar til um landið suðvestanvert.
Hiti verður á bilinu 3 til 10 stig, hlýjast suðvestantil.