Lék fórnarlamb eigin fegurðar

Leikkonan heimskunna, Nastassja Kinski, er stödd hér á landi. Hún …
Leikkonan heimskunna, Nastassja Kinski, er stödd hér á landi. Hún er heiðursgestur RIFF í ár. mbl.is/Ásdís

Á hóteli við höfnina á blaðamaður stefnumót við kvikmyndastjörnuna Nastössju Kinski. Hún býður af sér góðan þokka, er fíngerð kona með mjúka og þægilega rödd og bros sem nær til augnanna. Hún hafði lent kvöldinu áður og hyggst dvelja hér í þrjá daga, en Nastassja er í ár heiðursgestur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF.

„Það frábær tilfinning og mikill heiður að vera boðið hingað af RIFF. Mér finnst á einhvern hátt að mér hafi verið ætlað að vera hér og ég er þakklát,“ segir Nastassja.

Að segja sannleikann

Stjarna Nastössju Kinski reis skart undir lokin á áttunda áratugnum, en heita má að hún hafi slegið í gegn, aðeins sautján ára gömul, í kvikmynd Ítalans Alberto Lattuada, Stay as you are, þar sem hún lék eftirminnilega á móti sjálfum Marcello Mastroianni.

Aðeins ári seinna, 1979, hreif hún kvikmyndaunnendur upp úr skónum í hlutverki sínu í rómaðri ræmu Polanski, Tess, og hlaut fyrir vikið tilnefningu til Gullna hnattarins fyrir túlkun sína á ungri konu sem verður fórnarlamb eigin fegurðar. Myndin hlaut þrenn Óskarsverðlaun, meðal annars sem besta myndin. Hver myndin af annarri festi leikkonuna í sessi á stjörnuhimni heimsfrægðarinnar á níunda áratug síðustu aldar, og má þar nefna One from the Heart eftir Coppola, Cat People í leikstjórn Pauls Schrader og Paris, Texas í höndum Wim Wenders.

Dreymdi þig um að gerast leikkona strax í æsku?

„Nei, ég hafði meiri áhuga á tónlist, dansi og heimi læknisfræðinnar. Ég var mjög hljóðlát og feimin stelpa en fannst svo gaman að láta mömmu hlæja svo ég var alltaf að herma eftir fólki. Henni fannst ég svo flink í því að hún var sífellt að biðja mig um að herma eftir hinum og þessum og vildi endilega leyfa vinkonum sínum að sjá. En ég vildi það ekki og gerði það bara fyrir framan hana. En kannski þarna í undirmeðvitundinni sá ég að ég gæti tekið að mér hlutverk ýmissa karaktera og sagt sögur.“

Er það satt að einhver hafi uppgötvað þig þar sem þú áttir að hafa verið á diskóteki tólf ára?

„Nei, ég verð alltaf svo reið þegar ég heyri þetta. Þetta gerðist inni á kaffihúsi þar sem við vorum nokkrar stelpur að æfa dans við rokktónlist en það var hægt að spila lög úr glymskratta. Fyrir aftan kaffihúsið var leikhús og það var þýsk leikkona sem sá mig þarna. Seinna heyrði ég að með henni hefði verið leikstjóri „í felum“ en ég veit ekki enn hvort það sé satt,“ segir hún.

„Hún spurði mig hvort ég hefði leikið áður í kvikmyndum en ég neitaði því og benti henni strax á það að hún yrði að ræða málin við mömmu mína,“ segir Nastassja og nefnir að þessi lífseiga saga um diskótekið hafi fylgt sér lengi.

„Ég er að berjast alla ævi við að segja sannleikann,“ segir Nastassja og nefnir að hún sé orðin vön því að verja sig því margt ósatt hefur verið ritað um hana í pressunni í gegnum árin.

„Þegar ég var mjög ung kunni ég það ekki en vonandi hef ég lært það með árunum.“

Tess var stærsta skrefið

Frægð og frami bankaði upp á eftir að Nastassja lék í kvikmyndinni Tess, leikstýrt af Roman Polanski.

„Það var eftir Tess að ég varð þekkt. Ég hafði áður unnið með leikstjórunum Wim Wenders og Wolfgang Petersen og ég er þakklát fyrir það og margt annað. En Tess var vendipunkturinn. Algjörlega,“ segir Nastassja.

Nastassja lék eftirminnilega í kvikmyndinni Tess.
Nastassja lék eftirminnilega í kvikmyndinni Tess.

„Ég lagði mig alla fram, en til að fá hlutverkið þurfti ég að losna við hreiminn; það væri eina leiðin til að hreppa það. Þannig að ég æfði mig í marga mánuði og bjó heillengi í Englandi þar sem ég vann með leikhúsi. Ég hafði séð allar myndir Polanskis og hafði lesið bókina spjaldanna á milli. Bókin var orðin ansi lúin því ég fletti henni svo oft og undirstrikaði margar setningar. Ég tók þetta mjög alvarlega. Ég fékk hlutverkið og var mjög stolt af því að hann skyldi treysta mér fyrir því,“ segir Nastassja.

„Að leika í Tess, á átjánda árinu, var líklega mitt stærsta skref í lífinu. Áður vissi ég kannski ekki hvaða stefnu líf mitt tæki, en þarna var stefnan tekin,“ segir Nastassja.

Nakin með slöngu

Spurð út í frægð og frama, segir Nastassja að hún hafi ekki mikið hugsað út í það þar sem hún hafi byrjað í bransanum svo ung, en að hún hafi að sjálfsögðu vitað af frægðinni.

„Þetta var eins konar vegferð. Sem unglingur hugsaði ég ekki svo mikið út í þetta,“ segir hún, en Nastassja átti einnig feril sem fyrirsæta og sat oft fyrir hjá frægum ljósmyndurum á fyrstu áratugum ferilsins.

Í því hlutverki naut hún líka hylli og heimsathygli. Ljósmynd sem Richard Avedon tók af Kinski 1981 með asískan snák vafinn utan um nakin líkama hennar er einna frægust, enda prýddi hún ekki bara forsíðu bandaríska tímaritsins Vogue, heldur var prentuð á veggspjald sem seldist meira en nokkurt annað. Staða hennar sem kyntákn var þar með ráðin.

Myndatakan hjá Avedon er Nastössju enn í fersku minni.

„Ég man þegar ég gekk inn í myndverið hjá honum, þá var ég nítján ára. Stórar myndir af Marilyn Monroe blöstu við mér en hún var þarna í skínandi svörtum kjól og mér leið eins og hún væri að koma út úr veggnum! Mér fannst ég mjög heppin að fá að vera þarna og ég treysti Avedon. Hann myndaði margar leikkonur eins og Elizabeth Taylor og fleiri konur sem ég leit upp til. Ég var í raun á hans valdi, eins og viljalaust verkfæri. Það er góð tilfinning að fá að leyfa ljósmyndara eða leikstjóra að nota mann til að skapa listaverk eins og þeir sjá það. En að sjálfsögðu verður maður að samþykkja það sjálfur,“ segir Nastassja.

„Hann vildi hafa mig nakta með slönguna vegna þess að hann vildi skapa nútíma-Evu. Eva mátti auðvitað ekki vera í fötum,“ segir hún og brosir.

Varstu ekkert hrædd við slönguna?

„Nei, ég var það ekki. Eða kannski var ég það og hélt niðri í mér andanum?“ segir hún og brosir.

Að vinna með íslenskum leikstjóra

Nastassja Kinski er enn að, en á meðal þekktra mynda sem hún hefur leikið í á nýrri öld eru Inland Empire eftir David Lynch og Sugar í leikstjórn Rotimi Rainwater.

Margir muna eftir Nastössju í Cat People.
Margir muna eftir Nastössju í Cat People.

Ertu að vinna að einhverju núna?

„Já, ég er með svolítið í undirbúningi en get ekki sagt meir. Ég væri mjög til í að vinna aftur með Polanski. Ég vann með honum í þrígang og það væri gaman að vinna með honum í fjórða sinn. Það eru ýmsir leikstjórar sem ég væri til í að vinna með; kannski einhverjum á Íslandi?“

Við verðum að slá botninn í viðtalið, enda er stíf dagskrá hjá Nastössju Kinski.

„Ég þarf að drífa mig í hvalaskoðun!”

Ítarlegt viðtal er við Nastössju Kinski í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert