„Með hvaða hætti mun Íran bregðast við?“

Þórdís hefur verulegar áhyggjur af stigmögnun eftir að hryðjuverkaleiðtoginn Nasrallah …
Þórdís hefur verulegar áhyggjur af stigmögnun eftir að hryðjuverkaleiðtoginn Nasrallah var felldur. Samsett mynd/Skjáskot/SÞ/AFP

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ljóst hvað Hassan Nasrallah, fyrrverandi leiðtogi Hisbollah-hryðju­verka­sam­tak­anna, hefur ástundað en hún hefur verulegar áhyggjur af stigmögnun í Mið-Austurlöndum.

Þetta kemur fram í samtali hennar við mbl.is eftir að hún flutti ræðu sína á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld.

„Ég hef gríðarlegar áhyggjur af stigmögnun og það er ekki úr lausu lofti gripið,“ segir Þórdís.

Hassan Nasrallah var drep­inn í árás Ísra­els­hers á höfuðstöðvar sam­tak­anna í Beirút í gær­kvöldi.

Áhyggjurnar heyrast mest í óformlegum samtölum

Þórdís kveðst sérstaklega heyra af áhyggjum fólks í óformlegum samtölum á þinginu þar sem menn spyrja sig meðal annars hvernig brugðist verði við og „með hvaða hætti mun Íran bregðast við?“

Hún segir að ef menn missi enn frekar stjórn á atburðarásinni þá geti átökin orðið á öðrum skala en við höfum séð hingað til og hefur hún verulegar áhyggjur af því.

Almennir borgarar líða fyrir stigmögnun

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti sagði fyrr í dag að drápið á Nasrallah væri rétt­lætisaðgerð fyr­ir fórn­ar­lömb hryðju­verka­leiðtog­ans.

Tekur þú undir þessi orð Bandaríkjaforseta?

„Auðvitað liggur fyrir fyrir hvað Hisbollah stendur og hvað hann og aðrir – sem er líka búið að fella – hafa ástundað og gert. Mér finnst aðalatriðið vera að ná einhverri stjórn á þessari atburðarás og hvetja til stillingar vegna þess að það er ekki hægt að taka skrefin fram á við nema með því að kæla ástandið,“ segir Þórdís en bætir við:

„Ég hins vegar átta mig vel á því að það eru þessir stærstu leikendur og stærstu kraftar sem munu hafa áhrif á það hvernig næstu dagar og skref verða. En þegar að stigmögnun raungerist þá er það þannig að það eru almennir borgarar sem líða langmest fyrir það,“ segir hún.

Þórdís ávarpaði allsherjarþingið fyrr í kvöld.
Þórdís ávarpaði allsherjarþingið fyrr í kvöld. AFP/Leonardo Munoz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert