Þórdís: „Lítur út fyrir að þetta muni takast“

Það stefnir allt í það að Ísland muni í annað …
Það stefnir allt í það að Ísland muni í annað sinn fá sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. AFP/Leonardo Munoz

„Meginástæðan fyrir því að við sækjumst eftir sæti er sannfæring okkar á því að við getum gert gagn fyrir borgara í löndum þar sem mannréttindi eru ekki virt.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um ástæðu þess að Ísland sækist eftir sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Hún er bjartsýn á að Ísland hljóti kjör en kosið verður 9. október og kjörtímabilið er frá árinu 2025 til ársins 2027.

Þurfum að vera með skýrar áherslur

Ísland fékk í fyrsta sinn kjör­inn full­trúa í mann­rétt­indaráðið 13. júlí 2018 og lauk kjörtímabilinu 31. desember 2019. Kjörtímabilið var stutt en Ísland kom inn á miðju kjörtímabili af því að Banda­ríkja­menn drógu sig úr ráðinu.

„Þá sáum við það, fundum fyrir því og fengum að heyra það mjög skýrt að þessi vinna skiptir máli. Við erum auðvitað smá og það þýðir að við þurfum að vera með skýrar áherslur.

En það þýðir líka að smáríki eins og Ísland – sem leggur höfuðáherslu á mannréttindi og það er auðvitað kjarninn í okkar utanríkisstefnu – að við getum sett mál á dagskrá sem er erfiðara og flóknara fyrir stærri þjóðir að gera. Við getum sagt hluti sem er stundum of flókið fyrir stærri ríki að gera,“ segir Þórdís.

Ísland mun láta til sín taka

Þegar Ísland var síðast í ráðinu var staða mannréttinda í Sádi-Arabíu gagnrýnd, meðferð Kínverja á Úígúrum gagnrýnd og Ísland lagði fram tillögu um að stríð Filippseyja gegn fíkniefnum yrði rannsakað.

Sérðu fyrir þér – ef við hljótum kjör – að Ísland muni láta í sér heyra um svona mál?

„Ég er algjörlega sannfærð um að við munum gera það,“ segir Þórdís og bætir við að nú fái Ísland heilt kjörtímabil.

Fáum líklega brautargengi

Hún er bjartsýn á það að Ísland hljóti kjör í ráðið.

„Það lítur ekki út fyrir að það verði keppni. Við erum búin að vinna í okkar framboðsmálum. Ég er búin að eiga marga tugi tvíhliða fundi við öll möguleg ríki til að biðja um stuðning,“ segir hún og útskýrir að hún átti meðal annars fundi með Afríkuríkjum á síðasta allsherjarþingi.

„Það lítur út fyrir að þetta muni takast og vonandi með góðum stuðningi. Þetta framboð er í raun fyrir hönd Norðurlandanna,“ segir Þórdís en Ísland nýtur stuðnings allra Norðurlanda.

Staða kvenna í Afganistan mál sem Ísland getur lagt áherslu á

Hún segir bakslag vera í mannréttindamálum víða um heim og því af nógu að taka.

„Þarna höfum við verkfæri og svið til þess að láta til okkar taka. Bæði með því að setja mál á dagskrá og í samstarfi við aðrar þjóðir.“

Í grein í Morgunblaðinu fjallaði hún sérstaklega um stöðu kvenna í Afganistan. Aðspurð segir Þórdís að þetta sé dæmi um mál sem Ísland gæti beitt sér fyrir.

„Þar er um að ræða líklega versta mögulega stað fyrir stúlkur og konur. Þar sem að stjórnvöld og samfélagsgerðin er ekki að passa þær, er ekki að leyfa þeim að flissa á götum úti, lesa bók, tala saman eða taka nokkurn einasta þátt í samfélaginu,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert