Þórdís vill Ísland í umdeilt mannréttindaráð

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð flytur ávarp í kvöld.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð flytur ávarp í kvöld. UN Photo/Ariana Lindquist

Ísland mun gefa kost á sér til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á næsta ári.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag og mun hún minnast á þetta í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld.

Ísland hefur einu sinni áður verið kjörið í mannréttindaráðið og gustaði þó nokkuð um Ísland. Mannréttindaráðið hefur oft og tíðum verið gagnrýnt fyrir það hversu margar þjóðir eiga þar aðild sem traðka þó á mannréttindum fólks heima fyrir.

Þjóðir í ráðinu þar sem mannréttindabrot tíðkast

„Ísland er ekki stórveldi, en við höfum ákveðið að sitja ekki hjá heldur taka ábyrga afstöðu með alþjóðalögum og mannréttindum hvar sem við getum. Við höfum ekki afl til þess að koma ein í veg fyrir þann viðbjóð sem konur í Afganistan þurfa að sæta, en við getum valið á hvaða vogarskálar við leggjum okkar lóð, og þegar kemur að rétti kvenna hvar sem er í heiminum til þess að tala og hafa áhrif, þá geta þau skipt máli,“ ritar Þórdís í greininni.

Sjö Vesturlönd eiga rétt á fulltrúa í ráðinu hverju sinni og lýkur kjörtímabili Bandaríkjanna, Lúxemborgar og Finnlands á þessu ári.

Í ráðinu eru þó þjóðir sem hafa ekki frábæra sögu að segja í mannréttindamálum miðað við skýrslur Amnesty International. Svo nokkur dæmi séu tekin:

  • Súdan
  • Sómalía
  • Kína
  • Gambía
  • Eritrea
  • Búrúndí
  • Katar
  • Benin
  • Kyrgyzstan
  • Kazakhstan
  • Gana
  • Algería

Ísland áður verið í ráðinu í 18 mánuði

Ísland fékk í fyrsta sinn kjörinn fulltrúa í mannréttindaráðið 13. júlí 2018 og þótti það eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hafði gegnt á alþjóðavettvangi.

Sæti losnaði í ráðinu árið 2018 þegar Bandaríkjamenn drógu sig úr ráðinu vegna meints rótgróins haturs margra aðildarríkja gegn Ísrael. Kjörtímabilinu lauk 31. desember 2019.

Guðlaugur Þór Þórðarson var þá utanríkisráðherra og lagði hann mikla áherslu á mannréttindi.

Duterte kallaði tillögu Íslands klikkaða

Á meðan setunni stóð fékk Ísland tillögu sína samþykkta um að stríð gegn fíkniefnum í Filippseyjum yrði rannsakað.

Rodrigo Duterte, þáverandi for­seti Fil­ipps­eyja, kallaði tillögu Íslendinga klikkaða og íhugaði um tíma alvarlega að slíta öll tengsl Filippseyja við Ísland.

Ísland gagnrýndi meðferð Kínverja á Úígúrum

Ísland og 21 ríki til viðbót­ar sem áttu þá sæti í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna sendu einnig frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu þar sem meðferð kín­verskra ráðamanna á Úígúra-múslim­um í Xinjiang-héraðinu í Kína var gagn­rýnd.

Talið er að Kínverjar séu með Úígúra í sérstökum kyrrsetningarbúðum og hafa margar þjóðir veigrað sér við því að gagnrýna kínversk stjórnvöld.

Ísland leiddi hóp ríkja í gagnrýni á Sádi-Arabíu

Ísland leiddi einnig hóp ríkja í gagn­rýni á stöðu mann­rétt­inda­mála í Sádi-Ar­ab­íu í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna í Genf.

Það var í fyrsta skipti sem Sádi-Ar­ab­ía sæt­ti slíkri sam­stilltri gagn­rýni í ráðinu. 

„Nú er bolt­inn hjá stjórn­völd­um í Riyadh. Við köll­um eft­ir ákveðnum aðgerðum af hálfu yf­ir­valda í Sádi-Ar­ab­íu meðal ann­ars að ákveðnir ein­stak­ling­ar verði látn­ir laus­ir úr varðhaldi sem sitja þar fyr­ir eng­ar sak­ir eins og til dæm­is kona fyr­ir að keyra bíl­inn sinn. Einnig vilj­um við óháða rann­sókn á morði Khashoggi,“ sagði Guðlaug­ur í samtali við mbl.is á sínum tíma um málið.

Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna var stofnað árið 2006 á grund­velli Genfar-sátt­mál­ans og eiga 47 ríki full­trúa í ráðinu. Til­gang­ur ráðsins er að fjalla um og rann­saka mann­rétt­inda­brot. Rík­in eru kos­in af alls­herj­arþingi Sameinuðu þjóðanna til þriggja ára setu í senn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert