Allt var sett á fulla ferð nú í vikunni og byrjað að þreskja korn á ökrunum miklu við Gunnarsholt á Rangárvöllum. Þarna eru undir alls 320 hektarar; ræktun sem Björgvin Þór Harðarson í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi stundar sem fóðuröflun fyrir svínabúið Grís og flesk.
Á stærstum hluta þessa lands er ræktað bygg, en einnig repja og hveiti þótt í minna mæli sé.
„Axið er ágætlega sprottið og kornræktin hefur gengið vel þrátt fyrir að sumarið hafi verið kalt og oft rigning. Hér fáum við alveg fyrirtaksfóður, enda þótt veðráttan valdi því að fyllingin í axinu mætti vera lítið eitt meiri. Þetta er samt ekkert sem kemur að sök,“ segir Björgvin.
Ætla verður að spildurnar sem Björgvin leigir í Gunnarsholti af Landi og skógi, sem áður hét Landgræðslan, séu stærstu kornakrar landsins. Þetta eru víðfeðmar breiður og í bakgrunni þeirra fallegur fjallahringur þar sem Heklu, Tindfjöll og Þríhyrning ber hátt. Bóndinn ekur stórri þreskivél eftir akrinum og henni fylgir dráttarvél með vagni, þangað sem korni er dælt yfir. Sú afurð fer í þurrkun í Gunnarsholti, en frekari verkun er í verkunarstöð í Laxárdal.
„Ég vænti þess að uppskera þessa árs verði einhvers staðar á bilinu 800-100 tonn og með slíkt er ég alveg sáttur,“ segir bóndinn í Laxárdal, hvar lengi hefur verið stundaður svínabúskapur. Í húsi eru alls um 220 gyltur og afurðir frá búinu, meðal annars úr eigin kjötvinnslu, fara á markað víða meðal annars undir vörumerkinu Korngrís.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær. laugardag.