Ísafjarðarbær freistar þess að selja fasteignina þar sem hjúkrunarheimilið Eyri er rekið. Starfsemi hjúkrunarheimilisins verði óbreytt en rekstur fasteigna sé ekki heppilegastur hjá sveitarfélaginu en málið hefur verið í deiglunni um tíma.
„Nú erum við formlega að kalla eftir því hvort sérhæfð fasteignafélög hafi áhuga á að hasla sér völl hérna fyrir vestan. Við erum vongóð um að góð lending náist í málinu,“ segir Gylfi Ólafsson formaður bæjarráðs, en ákvörðun í málinu gæti legið fyrir á þessu ári.
„Gildistími auglýsingarinnar er mánuður sem er örugglega passlegt miðað við umfangið. Ef til þess kæmi að selja fasteignina þá áskiljum við okkur tíma eftir það til að fara yfir gögnin og ganga frá málinu með samþykkt bæjarstjórnar. Lokaákvörðun gæti því verið tekin í nóvember eða desember.“
Ísafjarðarbær rekur fasteignina en Heilbrigðisstofnun Vestfjarða rekur hjúkrunarheimilið. Gylfi leggur áherslu á að hlutverk hjúkrunarheimilisins breytist ekki og eignarhald húsnæðisins hafi ekki áhrif á íbúa heimilisins.
„Hjúkrunarheimilið verður áfram rekið af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og stofnunin hefur verið upplýst um málið á öllum stigum. Auk þess er þetta í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda að öðru leyti um eignarhald á húsnæði hjúkrunarheimila.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.