Blanda af reyndu fólki og ungu fólki úr atvinnulífinu

Arnar Þór Jónsson.
Arnar Þór Jónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Jónsson segir aðdragandann að því að stofna Lýðræðisflokkinn hafa verið langan. Í flokknum verði blanda af reynslumiklu fólki sem komið hefur áður að stjórnmálum og ungu fólki úr atvinnulífinu. Hann er gagnrýninn á íslenska ríkið og segir að fólk verði nú að fara að taka ábyrgð á framtíð landsins.

Arnar greindi frá því í morgun að hann hafi stofnað nýjan stjórnmálaflokk, Lýðræðisflokkinn, í þeim tilgangi „að vinna gegn þróun í átt til ofstjórnar og óstjórnar sem er að knésetja íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki“.

Aðspurður segir Arnar aðdraganda ákvörðunarinnar hafa átt sér langan aðdraganda og að upphaflega hafi hann ætlað að láta afskiptum sínum af þjóðmálum lokið eftir forsetakosningarnar. Hins vegar hafi margir komið að tali við hann og hvatt hann í þessa átt og lýst yfir áhyggjum.

Vilja leggja sitt af mörkum

„Við höfum áhyggjur af því hvert málin eru að þróast. Hér hefur ríkt óstjórn annars vegar og ofstjórn hins vegar,“ segir Arnar og heldur áfram.

„Við erum með óstjórn í mörgum málaflokkum. Það leka peningar út úr ríkiskassanum alls staðar. Síðan erum við með ofstjórn þar sem að ríkið, með eftirliti sínu og reglusetningu, er ofan í hálsmálinu á fólki alla daga og þetta er uppskrift að alls konar vandræðum og við viljum leggja okkar af mörkum.“

Ég tek eftir því að þú segir „við“ sem fær mig til að hugsa, hverjir eru komnir þarna inn með þér?

„Ég get sagt það að þetta er í bland, reynslumikið fólk sem hefur komið að stjórnmálum áður og síðan er þetta líka ungt fólk úr atvinnulífi sem að raunverulega vill láta gott af sér leiða og telur sig ekki geta horft lengur upp á þróunina eins og hún hefur verið.“

Ekki hægt að nefna nein nöfn eins og er?

„Nei, ég ætla að bíða með það þangað til að það er búið að boða til kosninga. En ég er með þéttan hóp sem er að vinna með mér.“

Á móti ríkisvæðingu stjórnmálanna

Verður prófkjör?

„Ég held að við verðum að gera þetta núna í fyrstu umferð. Vitandi ekki hvað við höfum nákvæmlega langan tíma, þá verðum við að gera þetta með uppstillingu. Ég held að það sé ekkert annað í boði í þessari fyrstu umferð.“

Ertu bjartsýnn fyrir næstu kosningar að Lýðræðisflokknum muni vegna vel?

„Ég er auðvitað að gera þetta í þeim tilgangi. Síðan hafa Íslendingar sem betur fer frjálst val og ef þeir eru hæstánægðir með frammistöðu þeirra flokka sem hafa setið á þingi núna síðustu ár þá auðvitað kjósa þeir þá áfram,“ segir Arnar og heldur áfram. 

„En við erum að gera þetta til þess að reyna að koma inn einhvers konar endurnýjun. Við erum á móti þessari ríkisvæðingu stjórnmálanna. Við viljum taka stjórnmálaflokkana af ríkisjötunni og við viljum að stjórnmálin fari aftur að þjóna fólkinu í landinu. Ekki erlendum yfirvöldum, ekki ríkisvaldinu, ekki embættismannakerfinu heldur fólkinu í landinu sem er að borga hérna skatta og reyna að halda þessu gangandi.“

Vilja efla beint lýðræði

„Eitt af því sem við viljum gera er að efla beint lýðræði. Ég held að frammi fyrir því hvernig flokkarnir hafa verið ríkisvæddir og hvernig er búið að skera á grasrót flokkanna að það séu þau bestu og kannski einu viðbrögðin sem hægt er að grípa til, það er að efla beint lýðræði, og það er hægt á árinu 2024 til dæmis með rafrænum kosningum um mikilvæg mál.

Ég hef nefnt þetta í sambandi við stefnumarkandi mál eins og það að það sé verið að nota okkar skattpening til þess að kaupa vopn til þess að nota í stríðsrekstri til að drepa fólk,“ segir Arnar og nefnir að Íslendingar ættu að fá að tjá sig um slíka hluti.

Þá er fyrrum forsetaframbjóðandinn harðorður er kemur að innviðum landsins og segir hann að margt þurfi að bæta.

„Innviðir eru að brotna, ég held að það sé alveg staðreynd. Við erum að horfa upp á þá stöðu að menntakerfið okkar er rándýrt í rekstri en það skilar ekki því sem það á að vera að skila. Það skilar börnunum okkar varla læsum eftir tíu ár. Stór hluti drengja stendur mjög illa þarna. 

Löggæslan er á brauðfótum frammi fyrir þeirri þróun sem hefur átt sér stað í landinu. Það eru glæpahópar búnir að skjóta hér rótum og þarna þarf að bregðast við.

Það vita allir að heilbrigðiskerfið sogar til sín endalaust mikið af peningum, samt lengjast biðlistarnir,“ segir Arnar og bætir við að íslenska ríkið sé farið að vasast í alls konar verkefnum sem það eigi ekki að vasast í.

Ríkið vanræki grundvallarverkefni

Segir hann ríkið eiga að sinna vegakerfi, löggæslu og grunnatriðum en skipta sér ekki af öðru. Staðan í dag sé hins vegar sú að ríkið sé komið með puttana sína í alls konar gæluverkefni og er eyðandi peningum í hluti sem það ætti ekki að vera að skipta sér af.

„En á meðan vanrækja þeir grundvallarverkefni sín og við þessu verður að bregðast. Það verður að stoppa þetta.“

Segir Arnar að spennandi tímar séu fram undan og tekur þó fram að nú sé verið upp á móti flokkum á borð við Sjálfstæðisflokkinn sem hafi töluvert meira fjármagn á bak við sig frá ríkinu. Skilaboðin eru hins vegar einföld.

„Fólk verður að fara að taka ábyrgð á framtíð Íslands og ég skora á Íslendinga að gera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert