„Við höfum verið að breyta verklagi og leggja aukinn þunga í þessi mál, þróunin í þjóðfélaginu hvetur okkur til þess,“ segir Þórarinn Þórarinsson lögreglufulltrúi í samtali við Morgunblaðið.
Lögreglan hefur vakið athygli á því að reglubundið eftirlit sé haft með eigendum skotvopna og geti þeir átt von á fyrirvaralausri heimsókn lögreglu til að kanna vörslu skotvopna og skotfæra.
Þórarinn segir að utanumhaldi með eftirliti og rannsóknum mála þar sem skotvopn koma við sögu hafi verið breytt, skilvirkni hafi aukist og rannsókn mála tæki skemmri tíma en áður.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur heimsótt vel á þriðja hundrað manns það sem af er ári og segir hún að almennt standi skotvopnaeigendur sig vel þegar kemur að því hvernig skotvopn og skotfæri eru varðveitt.
„Vopnalögum var breytt nýlega og kröfurnar eru orðnar meiri en áður. Það hefur sýnt sig að það veitir ekki af eftirliti, því að þótt flestir séu með sín mál í lagi, þá er varsla skotvopna hjá sumum alls ekki í lagi,“ segir Þórarinn og nefnir að í u.þ.b. 40% tilvika hafi verið gerð krafa um einhvers konar lagfæringar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.