Stefnt er að því að allir fæðingarstaðir landsins verði komnir með hugbúnað sem vistar fósturhjartsláttarrit og sónarniðurstöður miðlægt. Er hugbúnaðurinn gjöf frá Kvenfélagasambandi Íslands til allra kvenna.
Safnað var fyrir gjöfinni í tilefni af 90 ára afmæli sambandsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.
Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, tók formlega á móti gjöfinni þann 26. september.
„Þetta er hugbúnaður sem vistar miðlægt fósturhjartsláttarrit og sónarniðurstöður þannig að konur um allt land geta þá farið í þessar rannsóknir og þær eru vistaðar miðlægt og þá er hægt að fá álit sérfræðinga á hærra þjónustustigi til þess að meta þessar niðurstöður,“ segir Björk í samtali við mbl.is
Segir hún það gífurlega mikilvægt að hugbúnaðinum fylgi samræmd skráning og úrlestur á fósturhjartsláttarritum og ómskoðunum sem sé á sama tungumáli.
Nefnir hún þá að innleiðingin spari einnig konum og fjölskyldum ferðalög til staða þar sem rannsóknirnar eru vanalega gerðar.
„Þetta styrkir líka fag- og fagstéttir ljósmæðra og lækna sem vinna við fæðingar og með konum í meðgöngu þegar kemur að því að fá álit á fósturhjartsláttarritum.“
Segir hún að mikil þjónustuaukning og öryggi fylgi hugbúnaðinum.
Undirstrikar Björk samtakamátt kvenfélaga landsins sem söfnuðu fyrir hugbúnaðinum en félögin söfnuðu um 30 milljónum króna sem nýttust í gjöfina.
Segir Björk að hugbúnaðurinn létti búsetu þeirra sem búa úti á landi og hjálpi þeim að fá aukna þjónustu og að sögn hennar er stefnt á að búið verði að tengja hugbúnaðinn á alla fæðingarstaði landsins í febrúar 2025.
„Það er þá hægt að skoða fósturhjartsláttarrit í rauntíma á meðan fylgst er með hjartslætti barnsins á hærra þjónustustigi sem væri þá oftast Landspítalinn eða Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar eru sérfræðingar sem hægt væri að fá álit frá hvort þyrfti framhaldsaðgerðir eða hvort grípa þyrfti til frekari úrlausna,“ segir Björk og bætir við.
„Þetta er mikið öryggi fyrir alla sem vinna í þessu og þjónustu þeirra.“
„Varðandi sónarinn þá er það ákveðið form á niðurstöðunum sem eru settar fram þannig það er þá samræmd skráning á þeim sem að eykur öryggi í úrlestri,“ segir Björk og bætir við að það hafi verið sérstaklega stór stund að taka á móti gjöfinni þar sem bras hafi fylgt ferlinu en söfnunin hófst árið 2020.
Þá hafi Covid-faraldurinn fljótlega komið upp og var loksins hægt að prufukeyra hugbúnaðinn á Akranesi í fyrra.
Því hefði verið sérstaklega gaman að taka á móti gjöfinni núna fjórum árum síðar.