Höskuldur Daði Magnússon
Áætlað er að Sorpa muni afhenda tæplega fjórar milljónir bréfpoka til flokkunar á matarleifum í ár. Það er umtalsverð fækkun frá fyrra ári þegar rúmlega 25 milljón pokum var dreift.
Í byrjun árs var hætt að dreifa pokunum í matvöruverslunum og afgreiðsla þeirra færð inn á endurvinnslustöðvar Sorpu og í Góða hirðinn. Sú ráðstöfun hefur greinilega dregið úr þeim gífurlega áhuga íbúa höfuðborgarsvæðisins á pokunum sem komst í fréttir á síðasta ári þegar dæmi voru um að fólk hamstraði þá í stórum stíl.
Þetta felur í sér að kostnaður Sorpu er mun minni en í fyrra, samkvæmt svari fyrirtækisins við fyrirspurn Morgunblaðsins. Þá kostaði dreifing pokanna 292 milljónir króna en nú er áætlað að kostnaður Sorpu muni nema 48 milljónum króna. Báðar tölurnar eru án virðisaukaskatts. Nemur þessi sparnaður 84% fyrir fyrirtækið.
Samkvæmt umræðum á samfélagsmiðlum virðast ekki allir vita að pokarnir séu enn í boði endurgjaldslaust. Þannig má sjá að fólk furðar sig á verðlagningu á slíkum pokum í verslunum. Algengt verð í lágvöruverðsverslunum er í kringum 600 krónur fyrir búntið en dæmi munu vera um að þau sé seld á um þrjú þúsund krónur á bensínstöðvum. Það er hressileg álagning ef horft er til þess að samkvæmt upplýsingum frá Sorpu kostar hver poki íbúa tæpar 10 krónur auk virðisaukaskatts í innkaupum fyrir Sorpu og sveitarfélög. Sorpa hefur lýst því yfir að pokarnir verði fáanlegir endurgjaldslaust út árið 2025.