Andlát: Sigurður Björnsson

Sigurður Björnsson, krabbameinslæknir og fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands, lést á Landspítalanum í Fossvogi í gær, 29. september, 82 ára að aldri. Sigurður fæddist 5. júní 1942 í Princeton í New Jersey í Bandaríkjunum. Hann var sonur dr. Björns Sigurðssonar, læknis og forstöðumanns á Keldum (1913-1959), og Unu Jóhannesdóttur fulltrúa (1913-2000). Þau voru bæði úr Skagafirði.

Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1961 og lauk embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1968. Að loknu kandídatsári fór Sigurður til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og lauk sérfræðiprófi í almennum lyflækningum 1973 og í lyflækningum krabbameina tveimur árum síðar.

Eftir að Sigurður kom heim frá námi árið 1978 starfaði hann á Landspítala, St. Jósefsspítala á Landakoti og Borgarspítala. Hann lauk störfum sem yfirlæknir á Landspítala árið 2014 en var áfram sérfræðilæknir í Læknasetrinu til ársins 2021. Sigurður var formaður Krabbameinsfélags Íslands árin 1998 til 2008 en hann hafði verið í stjórn félagsins frá árinu 1980 og tók þar þátt í að koma ýmsum mikilvægum verkefnum á fót.

Árið 2005 var Sigurður sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu krabbameinslækninga. Hann var kjörinn í heiðursráð Krabbameinsfélagsins 2008 og sæmdur gullmerki félagsins. Jafnframt sinnti Sigurður stundakennslu á háskólastigi og lét til sín taka á opinberum vettvangi með skrifum um sérsvið sitt í læknisfræði.

Eftirlifandi kona Sigurðar er Rakel Valdimarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Sigurður á þrjú börn frá fyrra hjónabandi, þau Kristínu, Björn Pétur og Signýju Sif.
Barnabörnin eru níu og langafabörnin tvö. Börn Rakelar eru tvö frá fyrra hjónabandi, þrjú barnabörn og eitt langömmubarn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert