Glansaði á doktorsvörn eftir 11 ára vinnu

Daði Þór Vilhjálmsson yfirlæknir meðan á fjögurra klukkustunda vörn doktorsverkefnis …
Daði Þór Vilhjálmsson yfirlæknir meðan á fjögurra klukkustunda vörn doktorsverkefnis hans stóð í Svíaríki fyrir rúmri viku. Stóðst Daði Þór vörnina með æðsta láði. Ljósmynd/Aðsend

„Doktorsvörnin sjálf skiptist í raun í fjögur verkefni,“ segir dr. Daði Þór Vilhjálmsson, yfirlæknir krabbameinsskurðdeildar Háskólasjúkrahússins í Malmö í Svíþjóð, í samtali við mbl.is, en Daði varði fyrir rúmri viku doktorsverkefni sitt um nýja tækni við endurtengingu þarma eftir skurðaðgerðir með bestu mögulegu umsögn einkunnanefndar Háskólans í Lundi.

„Leki á hægðainnihaldi frá samtengingu þarma er mjög alvarlegur fylgikvilli í kjölfar þarmaaðgerða, hann á sér stað í þremur til 20 prósentum tilfella en hæsta lekatíðnin er frá samtengingum í endaþarmi,“ útskýrir nýdoktorinn sem á að baki langan starfsaldur í Svíþjóð, en Daði Þór ræddi ítarlega við Morgunblaðið snemmsumars í fyrra um líf sitt og starf auk skálmaldarinnar í Svíþjóð.

Hann segir lekann valda sjúklingum mikilli vanlíðan og auka veikinda- og dánartíðni þeirra, en þeirri tengingu þarma sem hann talar um er oftar en ekki beitt þegar krabbameinsskurðaðgerðir eru framkvæmdar á ristli og endaþarmi. „Þá er oft reynt að endurtengja þarminn eftir að búið er að fjarlægja hluta hans vegna krabbameinsins,“ heldur Daði Þór áfram.

Leiðir alltaf inn í nýjar rannsóknir

Þetta sé erfitt í framkvæmd í dag þar sem læknar eigi einkum við tvær aðferðir að styðjast, svokallaða handsaumsaðferð eða heftingu. „Þessar aðferðir eru taldar góðar í dag en við erum engu að síður að berjast við þennan fylgikvilla sem lekinn er sem þá krefst annarrar aðgerðar. Doktorsverkefnið mitt fjallar um þátttöku mína, þróun og prófun á nýrri aðferð við að tengja saman þarma eftir krabbameinsaðgerðir og tók öll vinnan við verkefnið í raun ellefu ár,“ segir hann frá.

Daði Þór með ritgerðina en rannsókn hans tók ellefu ár …
Daði Þór með ritgerðina en rannsókn hans tók ellefu ár og er í raun rétt að byrja svo sem lesa má um í viðtalinu. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstaða vinnu Daða Þórs og samstarfsfólks hans var mjög jákvæð fyrir þann sjúklingahóp sem hér á hlut að máli „og það var það sem ég var að birta og verja í doktorsverkefninu“, segir yfirlæknirinn.

Í verkefninu kynnti Daði vandamálið og afleiðingar þess og í framhaldinu hvernig hann teldi það best leyst með nýjum aðferðum og meðferðum miðað við þá þróunar- og rannsóknarvinnu sem vannst á ellefu árum. „Að lokum eru niðurstöður kynntar, samantekt og áframhald vinnunnar, svona verkefni leiða alltaf inn í nýjar rannsóknir til að halda starfinu áfram,“ lýsir hann umfangi verkefnisins.

Skæður andmælandi frá Linköping

Til andsvara við vörn Daða Þórs, sem tók fjórar klukkustundir, var prófessor Pär Myrelid við Háskólasjúkrahúsið í Linköping, skurðlæknir með sérþekkingu á því sviði sem nýdoktorsefnið fjallaði um í verkefni sínu. „Hann er formaður samtaka IBD-skurðlækna í Evrópu sem fást við bólgusjúkdóma í þörmum, er vel lesinn og mjög fróður enda þykir fjögurra klukkutíma vörn í lengra lagi,“ segir Daði Þór.

Stálin stinn, Daði Þór (t.v.) svarar Pär Myrelid, prófessor við …
Stálin stinn, Daði Þór (t.v.) svarar Pär Myrelid, prófessor við Háskólann í Linköping, sem brá beittum skeytum, enda vel lesinn og öllum hnútum kunnugur í rannsóknarefni kandídatsins íslenska. Ljósmynd/Aðsend

Hann lætur vel af glímunni við prófessorinn frá Linköping sem hafi borið upp krefjandi spurningar sem spennandi hafi verið að eiga við og miklar og fróðlegar umræður spunnist af.

„Þetta fer þannig fram að fundarstjóri, sem jafnan er prófessor við háskólann, býður áheyrendur velkomna og flytur ávarp sem í þetta sinn snerist um sögu Háskólans í Lundi. Þá tekur andmælandinn við og flytur sitt ávarp sem fjallar um efni doktorsverkefnisins, í þessu tilfelli hægðaleka frá endurtengingum þarma, og þá er komið að doktorsefninu að halda sinn fyrirlestur þar sem ég fór gróft yfir þessi fjögur verkefni sem doktorsritgerðin byggir á,“ segir Daði Þór frá.

„Marineraður í þekkingu“

Að þessu loknu tekur þriggja manna einkunnanefnd til við að meta frammistöðu doktorsefnisins gagnvart andmælanda en þar með er ekki sagt að ritgerðarhöfundur sé kominn á lygnan sjó því þegar hér er komið sögu gefst öllum viðstöddum í salnum færi á að spyrja kandídatinn út í efnið bjóði þeim svo við að horfa.

„Vörnin er auglýst opinberlega svo hver sem er getur komið og gert það,“ segir Daði Þór.

Þar með er vörninni formlega lokið og viðstaddir færa sig yfir í hliðarsal svo einkunnanefndinni gefist friður til að úrskurða um örlög doktorsefnis. „Þar er boðið upp á veitingar og reynt að láta tímann líða áður en einkunnanefndin gengur í salinn,“ segir Daði Þór sem neitar því alfarið að hafa verið í vafa um niðurstöðuna, augljóst hafi verið að vörn hans gekk öll að sólu.

Dóttir Daða, Sara Margrét, sat að sjálfsögðu vörn föður síns …
Dóttir Daða, Sara Margrét, sat að sjálfsögðu vörn föður síns og samfagnaði honum innilega þegar ljóst varð að einkunnanefndin taldi hann „marineraðan í aukaupplýsingum og þekkingu“ um efnið. Ljósmynd/Aðsend

„Tilfinningin var svo góð að allir vissu hvoru megin ákvörðunin kæmi til með að lenda,“ segir Daði Þór en tilkynning einkunnanefndar hefst með ávarpi formanns hennar.

„Svo er tilkynnt hvort maður hafi staðist eða ekki og þegar tilkynnt er um staðna vörn er glösum lyft og skálað, hvort tveggja fyrir hönd Háskólans í Lundi auk þess sem kveðja berst frá sjálfri skurðklíníkinni. Svo endar þetta með stórveislu um kvöldið,“ segir Daði Þór.

Og hvernig var tilfinningin svo að heyra tilkynninguna um að þú hefðir staðist?

„Mér leið óskaplega vel,“ svarar skurðlæknirinn hreinskilningslega, „einkunnanefnd skiptir þeim sem standast vörn oft í þrjá flokka, tilkynnti mér einn úr einkunnarnefndinni, það eru þeir sem ná svona þannig að sæmilega gengur, þeir sem standa sig mjög vel og svo þeir sem eru „marineraðir í aukaupplýsingum og þekkingu“ og mér var sýndur sá heiður að vera talinn marineraður í þekkingu,“ segir Daði Þór glettinn.

Rannsókn 700 sjúklinga

„Mitt verkefni snerist um að framkvæma svokallaðar pre-klínískar og klínískar rannsóknir á dýrum og svo sjúklingum eins og lög kveða á um að verði að gera í dag þegar nýjar aðferðir og tæki eru í notkun. Nú hef ég fengið samþykkt frá lyfjaeftirliti Svíþjóðar og siðanefnd í Lundi að framkvæma fimmta verkefni mitt sem er í startholunum. Þar notum við þessar aðferðir við endurtengingu þarma þar sem lekatíðnin er hæst, á þeim stað í endaþarmi þar sem 20 prósent allra leka koma upp í dag,“ segir Daði Þór, spurður út í hvað nú taki við.

Daði Þór við vörnina sem hann kvað hafa verið spennandi …
Daði Þór við vörnina sem hann kvað hafa verið spennandi og spurningar andmælanda góðar þótt tekið hefði á taugarnar. Ljósmynd/Aðsend

Þessu fylgi stór rannsókn sem tekur til 700 sjúklinga í Svíþjóð og öðrum Evrópuríkjum til að bera saman þær aðferðir sem nú eru notaðar og hina nýju tækni sem doktorsverkefni Daða Þórs fjallar um. „Fjöldi sjúkrastofnana í fleiri löndum í Evrópu hefur lýst áhuga á að taka þátt, en forsenda þess að ég hefji þessa nýju rannsókn er að ég ljúki þessari minni rannsókn sem eftir er, fimmta rannsóknarverkefninu, og það mun taka nokkur ár,“ segir hann.

Sýni nýja tæknin fram á að hún sé öruggari en þær aðferðir sem nú eru við lýði segir Daði Þór það verða byltingu fyrir sjúklinga með krabbamein í ristli og endaþarmi sem séu kandídatar í endurtengingu á þarmi og minnki líkurnar á að nota þurfi þarmapoka eða stómíu „sem við notum tímabundið á meðan tengingarnar eru að gróa“, segir Daði Þór að lokum af rannsókn sinni og doktorsverkefni.

Þeir Myrelid andmælandi stilla sér upp að lokinni vel heppnaðri …
Þeir Myrelid andmælandi stilla sér upp að lokinni vel heppnaðri vörn föstudaginn 20. september. Ljósmynd/Aðsend

Vargöldin ekki knúin til kyrrðar

Að lokum er annað ótækt en að inna skurðlækninn eftir því hvernig stríðsástandið sé í Svíþjóð miðað við stöðuna sem hann lýsti í viðtalinu við Morgunblaðið í fyrra sem hlekkjað er í hér að ofan.

„Staðan er mjög svipuð, en hér í Malmö sveiflast þessar skot- og hnífaárásir mjög mikið til milli mánaða og þegar eitthvað gerist fáum við oft hefndaráverka inn næstu daga á eftir,“ svarar Daði Þór og segir frá stórátaki lögreglu í Suður-Svíþjóð.

„Nú er svo komið að lögreglan er með átak sem hún kallar „Operation Alfred“ þar sem lögreglumönnum hefur verið fjölgað mjög mikið á götunum. Það er alveg sama hvar maður er hérna í Malmö núna, akandi, í lest eða gangandi, maður sér lögreglu alls staðar og það hindrar þessa glæpi auðvitað, alla vega tímabundið. Lögreglan reynir að vera eins sýnileg og hún getur og það skilar sér alveg meðan á því stendur,“ segir Daði Þór Vilhjálmsson að lokum, yfirlæknir og nýdoktor við Háskólann í Lundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert