Eggert Skúlason
Sögur af björgunarafrekum þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar eru orðnar fjölmargar. Allar eru þær einstakar enda mannslíf í húfi.
Benóný Ásgrímsson rifjar upp eitt áhrifaríkasta augnablik á hans ferli í Dagmálum dagsins.
Skip hafði farist milli Íslands og Færeyja. Þyrlan var búin að bjarga níu manns og eldsneytið á þrotum, ef tryggja átti að þyrlan næði til Hornafjarðar með skipbrotsmenn og áhöfn. Þá rann upp fyrir Benóný að einn maður var eftir í sjónum.
„Guð minn góður, við gleymdum einum,“ sagði hann. Benóný sneri við og tilkynnti að þeir hefðu í mesta lagi fjórar til fimm mínútur að leita mannsins sem hafði fallið úr björgunarlykkjunni og þeir gleymt.
Þyrlan seig aftur niður að skipinu og við þeim blasti maðurinn, eins ótrúlegt og það hljómar. Honum var bjargað um borð. Benóný þakkar þetta ekki síst æðri máttarvöldum en hann segist mjög trúaður.
27 árum síðar hittust þeir Benóný og tíundi maðurinn sem bjargað var.
Benóný og Páll Halldórsson, fyrrum þyrluflugmenn, eru gestir Dagmála í dag, ásamt Júlíusi Ó. Einarssyni, en þeir hafa skrifað og sent frá sér bókina Til taks. Þar er rakin þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands – fyrstu 40 árin. Í viðtalsbrotinu sem fylgir fréttinni segir Benóný frá þessari björgun og endurfundum 27 árum síðar.
Þátturinn í heild sinni er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.