Halldór Auðar hættir og Atli fær atkvæðisrétt

Halldór Auðar Svansson.
Halldór Auðar Svansson.

Halldór Auðar Svansson, spánnýr formaður framkvæmdastjórnar þingflokks Pírata, er hættur sem formaður framkvæmdastjórnarinnar. Hann situr þó áfram í framkvæmdastjórninni. Þetta kemur fram í tilkynningu inni á vefsvæðinu Virkir píratar á Facebook.

Tilkynningin er birt í nafni stjórnar sem kjörin var 7. september.

Athygli vekur að í tilkynningu stjórnar er tilkynnt um að varamenn í stjórn verði hér eftir með atkvæðisrétt í framkvæmdastjórn en miklar deilur hafa skapast innan þingflokksins í kjölfar kjörs framkvæmdastjórnar.

Atli fær atkvæðisrétt

Fimm stjórnarmenn voru valdir og tveir varamenn stjórnar. Sitjandi formaður, Atli Stefán Yngvason, fékk einnig atkvæðarétt sem fyrsti varamaður stjórnar, en ákveðið var að varamenn fengju atkvæðarétt.

Að sögn innanbúðarmanna sættu sumir þingmenn sig illa við það. Var samskiptastjóri þingflokksins, Atli Þór Fanndal, rekinn af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformanni.

Segir að komið hafi fram krafa frá þungavigtarfólki í flokknum um að varamenn fengju atkvæði í stjórninni. Halldór Auðar sagði m.a. í samtali við mbl.is á föstudag að honum hugnaðist illa að breyta samþykktum flokksins eftir á. Þá sagði hann nýjan arm vera að myndast í flokknum.

Þórhildur tekur við

„Kjörnum varamönnum í stjórn hefur verið boðið að sitja alla fundi framkvæmdastjórnar og hafa þeir þar með bæði fullt málfrelsi og atkvæðisrétt líkt og aðrir meðlimir framkvæmdastjórnar,“ segir í tilkynningu á vefstæði Pírata.

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir tekur við sem formaður framkvæmdastjórnar.

Ekki náðist í Halldór Auðar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert