Innbrot í heimahús: Nýkominn frá útlöndum

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um innbrot í heimahús í hverfi 220 í Hafnarfirði. Húsráðandi var að koma úr fríi í útlöndum þegar tilkynning barst lögreglunni.

Einnig barst tilkynning um tvö innbrot á veitingastaði í miðbæ Reykjavíkur.

Í hverfi 104 í Reykjavík var tilkynnt um ökutæki að aka gegn akstursstefnu. Einnig kom fram að ökumaðurinn æki bifreið sinni gegn rauðu ljósi. Þegar lögreglan hafði afskipti af bifreiðinni reyndust of margir farþegar vera í henni og ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.

Neitaði að yfirgefa hótelið

Tilkynnt var um einstakling í anddyri hótels í miðbæ Reykjavíkur sem neitaði að fara þaðan. Hann yfirgaf þó hótelið í rólegheitum í fylgd lögreglunnar.

Einstaklingur í hverfi 104 neitaði að greiða fyrir leigubifreið. Hann var farinn af vettvangi þegar lögreglan mætti á staðinn.

Tilkynnt var um einstakling að stela dósum úr söfnunargámi. Sá grunaði fannst ekki þrátt fyrir leit.

Pappaspjöld vafin í plastpoka

Höfð voru afskipti af ökumanni bifreiðar í hverfi 200 í Kópavogi. Skráningarnúmer bifreiðarinnar voru augljóslega ekki löggild merki. Þetta voru pappaspjöld vafin í plastpoka með skráningarnúmer skrifuð á, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Kom í ljós við viðræður að ökumaðurinn er sviptur ökuréttindum. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum vímugjafa.

Tilkynnt var um krakka að reykja kannabis á leikskólalóð í hverfi 220 í Hafnarfirði. Þeir fundust ekki þrátt fyrir leit lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert