Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur samþykkt að heimila ferðir íshella á jöklinum á ný. Ekki hefur verið farið í íshellaferðir á svæði þjóðgarðsins síðan að bandarískur maður lést í slysi í slíkri ferð á Breiðamerkurjökli í lok ágúst.
Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.
Segir þar að gildistíminn sé til 1. nóvember og bætt yrði við auknum öryggisákvæðum.
Eingöngu verður hægt að fara í ferðir á þeim stöðum þar sem áhættumat hefur farið fram og jafnframt verður í skilmálum kveðið á um samstarfshóp rekstraraðila og Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi sem muni framkvæma daglegt stöðumat á öryggi ísmyndana.
Slíkt mat byggi í grunninn á áhættumati sem Vatnajökulsþjóðgarður lét gera árið 2017 til viðbótar aðferðafræði sem samstarfshópurinn leggur fyrir þjóðgarðinn til samþykktar, segir í tilkynningunni.
Kemur enn fremur fram að um sé að ræða tilraunaverkefni sem geti tekið þróun á gildistímanum.
Þá bendir stjórnin á að öryggi ferðafólks í seldum ferðum er endanlega á ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækis og leiðsögumanns.