Langtímalausn að setja Reykjanesbraut í stokk

Þorvaldur ræðir við mbl.is um hinar ýmsu sviðsmyndir.
Þorvaldur ræðir við mbl.is um hinar ýmsu sviðsmyndir. Samsett mynd/mbl.is/Arnþór/Árni Sæberg

Ef eldgosin á Reykjanesskaganum halda áfram að stækka og koma nokkrum sinnum til viðbótar upp norðarlega þá mun hraun á endanum renna yfir Reykjanesbraut.

Ein möguleg langtímalausn til að tryggja samgöngur gæti verið að setja Reykjanesbraut í stokk.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, í samtali við mbl.is

Í erindi Bergrún­ar Örnu Óla­dótt­ur, sér­fræðings á Veður­stofu Íslands, á upp­lýs­inga­fundi með íbúum Voga á fimmtudaginn kom fram að ein sviðsmynd Veður­stofu Íslands ger­ði ráð fyr­ir að gos kæmi upp á sama stað og síðast.

Ólíklegt að hraun flæði yfir Reykjanesbraut

„Ef það gýs þarna fyrir norðan vatnaskil, hvort sem gosið byrjar þar eða færir sig þangað eins og gerðist síðast, þá er náttúrlega alltaf einhver möguleiki á því að hraun nái niður að Reykjanesbraut og fari jafnvel yfir Reykjanesbrautina. En sviðsmyndirnar eru auðvitað mismunandi eftir því hvar gosið byrjar,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að ef krafturinn í eldgosinu verði mikill þá sé fræðilegur möguleiki á því að hraun myndi ná Reykjanesbrautinni á innan við sólarhring, þó að það sé ólíklegt.

„Það er mjög ólíklegt að það gerist. Það verður að taka það fram en það er möguleiki,“ segir Þorvaldur.

En ef það er rétt að gosin séu sífellt að verða stærri, eins og Veðurstofan segir, þá eru meiri líkur á því.

Innviðir ávallt í hættu

Hann segir innviði ávallt vera í hættu og það geti vel verið að það þurfi meira en eitt eldgos til þess að hraun næði niður að Reykjanesbraut.

Þorvaldur segir aðspurður að það sé hægt að grípa til aðgerða til þess að verja innviði.

Hann nefnir að það séu lægðir rétt sunnan við Reykjanesbrautina sem gætu tekið við mjög miklu hrauni og að það mætti byggja varnargarða til þess að beina hrauni þangað.

Spurning hvað er raunhæft

„En ef gosin verða þeim mun stærri og halda áfram með hraunflæði þarna niður eftir þá endar það með því að það fer yfir Reykjanesbrautina. Og þá náttúrlega er kannski langtímalausnin sú að kannski taka Reykjanesbrautina niður í stokk og byggja yfir stokkinn þannig að það yrðu svona hálfgerð undirgöng.

Þannig að hraunið – þar sem að landið er lægst, þarna alveg við Vogastapa – þá er hægt að láta hraunið flæða yfir veginn. En vegurinn er þá undir hrauninu og það er hægt að keyra hann,“ segir Þorvaldur.

Hann segir þó að það þurfi að hugsa um hvað sé raunhæft, hvað framkvæmdir kosti og hvað taki langan tíma að ráðast í þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert