Líkurnar á því að dyngjugos verði á Sundhnúkagígaröðinni aukast með tímanum. Það myndi þýða að Reykjanesbrautin væri ekki ein innviða á Reykjanesskaga um að vera í hættu. Slíkt gos gæti varað í nokkur ár eða jafnvel áratugi.
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor í samtali við Morgunblaðið.
Dyngjugos leiða oft af sér dyngjufjöll en þau þurfa að standa ansi lengi til þess að mynda stórar dyngjur á borð við Skjaldbreið, sem tók um 30-100 ár að myndast.
Flest gos frá því í desember hafa byrjað á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells og ef næsta gos kemur þar upp þá aukast líkurnar á langvinnu gosi, að sögn Þorvaldar. En hversu líklegt er þetta?
„Það er alla vega möguleiki og mér finnst möguleikarnir alltaf vera að aukast eftir því sem þetta heldur áfram lengur,“ segir Þorvaldur og bætir við:
„Ef þetta heldur áfram svona þá endar það með atburði sem getur orðið mjög langvinnt gos og myndar þá í raun og veru hraunskjöld. Það er alla vega einn möguleiki og ef það gerist þá er miklu meira en Reykjanesbraut að fara undir hraun.“
Hann tekur fram að þetta sé ekki líklegasta sviðsmyndin og í raun fremur ólíklegt en samt sem áður fari líkur á þessu vaxandi.
Gæti þetta gos þá varað í einhverja mánuði?
„Já, eða jafnvel ár eða áratugi,“ segir Þorvaldur.
Hann segir að almenn tilfinning vísindamanna sé sú að hraunskildir séu myndaðir í einu löngu gosi. Það sé samt ekki alveg vitað hvernig aðdragandinn að slíkum gosum sé.
„Þau gætu byrjað sem mörg lítil gos sem fara þá stækkandi þangað til við erum komin með það stórt og mikið gos að við búum til hrauntjörn í aðalgígnum. Og hún verður nægilega stór til þess að taka við verulegu magni og deilir svo hrauni út frá sér og dreifir hrauni allt í kringum sig. En flæðið að neðan – það er bara stöðugt inn í þessa hrauntjörn – þannig að gosið getur þá staðið yfir í miklu meira en mánuði,“ segir hann og bendir á að slíkt hafi gerst á Havaí árið 1983. Það gos stóð yfir í 35 ár.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.