Mun sækja í fylgishóp Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. mbl.is

„Flestar tilraunir í þessa veru enda ekki til mikillar lengdar,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólanna á Bifröst, aðspurður um stofnun Arnars Þórs Jónssonar á Lýðræðisflokknum sem hann kynnti um nýliðna helgi.

Arnar Þór segist hafa stofnað Lýðræðisflokkinn í þeim tilgangi að vinna gegn þróun í átt til ofstjórnar og óstjórnar sem sé að knésetja íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki. Hann segir aðdragandann að því að stofna Lýðræðisflokkinn hafa verið langan.

„Auðvitað er til nokkur dæmi um að nýstofnaðir flokkar hafa náð einhverri fótfestu og þar má nefna til að mynda Miðflokkinn og Viðreisn en yfirleitt gengur svona pólitískum nýjungum af þessum toga yfirleitt betur ef það eru sitjandi þingmenn sem fara fyrir slíku,“ segir Eiríkur Bergmann við mbl.is.

Eiríkur segir mjög algengt að svona flokkar rjúki upp í könnunum til að byrja með en síðan geti verið flóknara fyrir þá að endast og ná í mark. Hann nefnir í því sambandi flokk Lilju Mósesdóttur, Samstöðuflokkinn, sem hafi farið með himinskautum til að byrja með en náði ekki inn á þing.

Eiríkur segir að Arnar muni reyna að sækja inn í fylgishópa Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

„Það er þessi áhersla á fullveldi sem er mjög sterkt merki Miðflokksins sem hann staðsetur sig. Þetta getur á einhvern hátt klórað inn í þetta ris Miðflokksins. Það er ekkert útilokað og sérstaklega svona framan af,“ segir Eiríkur.

Mikil gerjun á hægri vængnum

Eiríkur segir mikla gerjun í gangi á hægri væng stjórnmálanna og það sé nánast uppbrot á honum með gríðarlega miklu fylgisfalli Sjálfstæðisflokksins sem klemmist á milli framboða sitt hvorum megin við hann.

„Miðflokkurinn sækir að fylgi Sjálfstæðisflokksins íhaldsmegin, hinu þjóðlega íhaldi, á meðan Viðreisn sækir að fylgi flokksins frjálslyndis megin. Það gerir það af verkum að Sjálfstæðisflokkurinn veit ekki alveg í hvora áttina hann eigi að snúa sér þegar kemur að þessu. Hann hefur frekar farið í það að sækja aftur að þessu fylgi sem virðist vera að færast til Miðflokksins og hefur þá skilið eftir ákveðna eyðu frjálslyndis megin við sig sem Viðreisn er byrjuð að nýta sér.“

Ert þú búinn að sjá það fyrir þér hvenær það verður boðað til kosninga?

„Ég held að það verði ekki kosningar á þessu ári og þær verði frekar á fyrri hluta næsta ár heldur en þeim síðari en það er engin leið að spá fyrir um það núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert