Segir raunverulegar breytingar taka tíma

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Karítas

Ef raunverulegar breytingar í menntamálum eiga að nást, þá þurfa þær að byggja á samtali og samvinnu. Það tekur tíma. Íslensk stjórnvöld eru lunkin við að setja fram stefnur og áætlanir en það sem mætti aftur á móti betur fara er innleiðing þeirra alveg niður í grasrótina. 

Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is á menntaþingi í dag. 

Þar voru kynnt drög að 2. aðgerðaáætlun menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Eiga aðgerðirnar að koma til framkvæmda árin 2024-2027.

Áætlunin felur í sér tuttugu fyrirhugaðar aðgerðir, sem eru ekki fullmótaðar, en fullyrt er að með þeim eigi meðal annars að bregðast við slökum árangri íslenskra grunnskólabarna í PISA-könnuninni.

Byggja ofan á grunn fyrstu áætlunarinnar

Kynna átti aðgerðirnar vegna PISA til samráðs í júní en ráðherra frestaði kynningunni fram á haust. Voru drög að þeim svo kynnt á menntaþingi í dag. Nýta á endurgjöf frá þinggestum til að fullmóta þær.

Ekki liggur fyrir hvenær lokaaðgerðaáætlun mun liggja fyrir en þúsund þátttakendur voru skráðir á menntaþingið.

„Aðgerðirnar snúast um að halda áfram að byggja ofan á grunn fyrstu aðgerðaáætlunar menntastefnu, byggja ofan á þennan grunn varðandi þessar grunnstoðir menntastefnunnar, halda áfram aðgerðum þegar kemur að kennurum, námsgögnum, inngildingu, skólaþjónustu, efla tölfræðihluta og fleiri þætti þannig að þetta snýst bara um að halda áfram að byggja ofan á þennan grunn sem byggir á samtali helstu hagaðila menntakerfisins en líka niðurstöðum PISA og QUINT [Quality in nordic teaching] og fleiri rannsókna sem hafa komið frá því að þessi fyrsta aðgerðaáætlun menntastefnunnar var sett,“ segir Ásmundur Einar um aðgerðaáætlunina.

Um 600 voru mætt til að fylgjast með menntaþingi og …
Um 600 voru mætt til að fylgjast með menntaþingi og um 400 tóku þátt fjarstaddir. mbl.is/Karítas

Vilja gefa öllum tækifæri til að dýpka aðgerðirnar

Eins og áður sagði verður endurgjöf þinggesta í dag nýtt við að fullmóta aðgerðirnar sem stjórnvöld hafa lagt fram.

„Hér eru um þúsund aðilar skráðir á þetta menntaþing, við viljum gefa öllum aðilum tækifæri til þess að dýpka þetta enn frekar og munum svo vinna það í framhaldinu og setja svo aðra aðgerðaáætlun menntastefnu af stað,“ segir ráðherrann.

Stuðningur við börn með erlendan bakgrunn mikilvægastur

Að mati ráðherrans skipta þær aðgerðir mestu máli er snúa að bættri og aukinni þjónustu við börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Við sjáum stóraukinn fjölda barna með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Þau standa aftar þegar kemur að líðan, þau standa aftar þegar kemur að námsárangri, þau standa aftar þegar kemur að almennum tækifærum og allt sem getur stutt þau með beinum og óbeinum hætti, það finnst mér skipta mjög miklu máli.

En auðvitað eru allar þessar aðgerðir mikilvægar og samspil þeirra kannski hvað mikilvægast vegna þess að þetta tengist allt saman með einum og með beinum og óbeinum hætti.“

Til að mynda nefnir ráðherrann samspil milli leikskóla og grunnskóla annars vegar og samspil framhaldsskóla og grunnskóla hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka