Segist ósáttur við ákvörðun Svandísar

Sigurður Ingi Jóhannsson segist ósáttur við þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra um að banna hvalveiðar. Ákvörðunin kom honum í opna skjöldu.

Þetta kemur fram í nýju viðtali við Sigurð Inga í Spursmálum. Í þessari viku stefnir allt í að Svandís Svavarsdóttir verði kjörin formaður VG og taki við því hlutverki af Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Með þeim vistaskiptum verður Svandís formlega einn af leiðtogum ríkisstjórnarinnar, ásamt Sigurði Inga og Bjarna Benediktssyni.

Orðaskiptin um hvalveiðarnar má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum hér að neðan.

Tjáð sig hiklaust gegn ákvörðuninni

Ert þú fyllilega sáttur við að þetta mál hafi farið í þennan farveg, hafi svipt þetta fyrirtæki möguleikanum að sinna sinni útgerð og það er yfirvofandi yfir ríkinu skaðabótakrafa sem gæti hlaupið á milljörðum króna.

„Nei, ég er ósáttur og hef alveg hiklaust tjáð mig með þeim hætti alveg frá upphafi. Í stjórnarsáttmálanum er ekki stafur um hvalveiðar, hvorki að þeim skuli við haldið eða að þeim skuli hætt og það er eitt af þeim málum sem við einfaldlega sögðum: látum liggja. Þess vegna kom mér ákvörðunin á sínum tíma á óvart og var ekki sáttur við hana og hef alveg lýst þeirri skoðun minni.“

Heldur þú að fyrirtækið eigi rétt á bótum gagnvart ríkinu vegna þessarar framgöngu?

Ætlar ekki að setjast í dómarasæti

„Ég ætla ekki að setjast í það dómarasæti. Það þurfa aðrir að gera það með lögmætum hætti. Ég er semsagt hlynntur því að við stundum sjálfbærar veiðar, hvort sem er á hvölum eða öðrum tegundum svo lengi sem við gerum það með sjálfbærum og öruggum hætti.“

En viðurkennir þú eða horfist í augu við að fyrirtækið hafi orðið fyrir tjóni vegna þessarar ákvörðunar?

Svandís Svavarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa setið saman í …
Svandís Svavarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa setið saman í ríkisstjórn í á áttunda ár. mbl.is/samsett mynd

Fólk varð fyrir tjóni

„Það er augljóst að fólk sem bjóst við því að fara að vinna þarna í fyrrasumar en svo gufaði sú vinna upp, það varð fyrir tjóni, ég held að það sé nokkuð augljóst, það fékk alla vega ekki þá vinnu sem við vitum líka að er ágætlega borgað fyrir en hvort þau fengu síðan vinnu sem var betur borgað fyrir, það bara veit ég ekki.“

Viðtalið við Sigurð Inga má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert