Skyndifundur um Ölfusárbrú

Ný Ölfusárbrú við Selfoss verður 330 metra löng og stöpull …
Ný Ölfusárbrú við Selfoss verður 330 metra löng og stöpull fyrir miðju verður um 60 metra hár, með stögum niður að brúargólfi. Teikning/Vegagerðin

Stefnt er að því að meirihluti fjárlaganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis setjist á fjarfund með fulltrúum ráðuneyta innviða og fjármála í dag, þar sem fara á yfir stöðu mála varðandi nýja brú yfir Ölfusá. Boðað var til fundarins í gær, sem heimildarmönnum Morgunblaðsins þykir óvenjulegt, þar sem nú stendur yfir kjördæmavika og þingmenn á ferð og flugi. Aðstoðarmenn ráðherranna höfðu milligöngu um fundarboðið.

Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkti í sl. viku ósk um minnisblað frá innviðaráðuneytinu um stöðu Ölfusárbrúarverkefnisins sem og þeirra vegaframkvæmda sem henni tengjast. Einnig er beðið um uppfærða tímalínu framkvæmdarinnar, áfallinn kostnað, uppfærða kostnaðaráætlun og áætlaðan fjármagnskostnað, en síðast þegar til áætlunarinnar spurðist fyrir ári stóð hún í 15,3 milljörðum.

Þá óskar nefndin eftir upplýsingum um hvort ástæða sé til að endurskoða hönnunarþátt verkefnisins m.t.t. þess að hagkvæmni þess væri sem best tryggð. Loks vill nefndin fá upplýsingar um hvernig fjármögnun verkefnisins, sem gjaldtaka á að standa undir, falli að lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir og næstu skref.

Njáll Trausti Friðbertsson formaður fjárlaganefndar segir í samtali við Morgunblaðið að til standi að kynna stöðu Ölfusárbrúarverkefnisins, hvort annað sé þar til umræðu viti hann ekki.

„Grunnforsendan er að Ölfusárbrú verði að fullu fjármögnuð með veggjöldum og því verður ekki breytt. Ég hvika ekki frá því,“ segir Njáll Trausti. Í sama streng tekur Bjarni Jónsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Framúrkeyrsla eins og í Hornafirði megi ekki endurtaka sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert