Svona vilja stjórnvöld bregðast við PISA

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins. mbl.is/Karítas

Aukin áhersla í menntakerfinu á loftslagsmál og sjálfbærni, þróun námsframboðs, fjölgun kennara, meiri íslenskufærni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun barna, safn vandaðra almennra skimunartækja til notkunar í skólum.

Þetta eru meðal 20 aðgerða í lauslega orðuðum drögum að 2. aðgerðaáætlun menntastefnu stjórnvalda til árins 2030, sem afhent voru á menntaþingi rétt í þessu. Með aðgerðunum á meðal annars að bregðast við slökum árangri íslenskra grunnskólanema í PISA-könnuninni árið 2022, en sá árangur kom í ljós fyrir nær tíu mánuðum.

Með drögunum er einnig kallað eftir endurgjöf frá gestum þingsins um þessar aðgerðir ásamt verkþáttum sem ráðuneytið muni kynna í hópvinnu.

Fimm mismunandi flokkar

Aðgerðunum er skipt niður í fimm mismunandi flokka: Hæfni fyrir framtíðina, kennsla í fremstu röð, jöfn tækifæri fyrir alla, vellíðan í öndvegi og gæði í forgrunni.

Í flokknum hæfni fyrir framtíðina er kveðið á um fjórar aðgerðir sem felast í stefnu um stafrænar lausnir í skólastarfi, sjálfbærni og loftslagsmál í menntun, þróu námsframboðs framhaldsskóla og stafræna borgarvitund í menntun og áherslu á miðlalæsi.

Í flokknum kennsla í fremstu röð er lögð áhersla á fjölgun kennara, íslenskufærni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun barna, öfluga kennara og stuðning og ráðgjöf við nám og kennslu.

Aðalnámskrá endurskoðuð

Í flokknum jöfn tækifæri fyrir alla er kveðið á um fjórar aðgerðir. Þær fela í sér samræmt verklag um móttöku, menntun og inngildingu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrundd, eflingu námsgagnaútgáfu, öflugt samráð við börn og ungmenni um menntamál og menntaþing um leikskólastigið.

Í flokknum vellíðan í öndvegi leggja stjórnvöld áherslu á innleiðingu heildstæðrar löggjafar um inngildandi menntun og skólaþjónustu, safn vandaðra og almennra skimunartækja, vellíðan í skóla- og frístundastarfi og að námsumhverfi barna styðji við farsælt nám og vellíðan.

Að lokum er það flokkurinn gæði í forgrunni. Þar er kveðið á um mikilvægi menntatölfræði og að bæta upplýsingaöflun ríkis og sveitarfélaga um skólahald og líðan, að endurskoða aðalnámskrá leik-, grunn,- framhalds- og tónlistarskóla, endurskoða mat og eftirlit með skólastarfi og að bæta námsárangur í alþjóðlegum samanburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert