Aðalskrifstofa Rauða krossins flytur

Aðalskrifstofa Rauða krossins á Íslandi verður flutt tímabundið frá Efstaleiti 9 í Víkurhvarf 1 vegna framkvæmda. Vegna flutninganna verður skrifstofan lokuð dagana 2.-4. október.

Þetta kemur í tilkynningu frá Rauða krossinum. 

Þar segir, að framkvæmdir séu á næsta leiti á aðalskrifstofu Rauða krossins á Íslandi og því verður starfsemin flutt frá Efstaleiti 9 í Víkurhvarf 1, þar sem hún opni á ný 7. október.

„Aðalskrifstofa Rauða krossins var byggð árið 1997 og engar framkvæmdir hafa farið fram á húsinu síðastliðin 27 ár. Nú er því kominn tími fyrir viðgerðir og uppfærslu á húsnæðinu svo það mæti betur þörfum starfseminnar, sem hefur breyst mikið frá opnun.

Vegna flutninganna verður lokað á aðalskrifstofu Rauða krossins dagana 2.-4. október og svo opnar skrifstofan aftur á nýja staðnum þann 7. október,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir, að áætlað sé að aðalskrifstofan verði flutt aftur í Efstaleiti 9 um miðbik næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert