Andlát: Ormar Þór Guðmundsson

Ormar Þór Guðmunds­son arkitekt lést síðast­liðinn fimmtudag, 26. september, 89 ára að aldri.

Ormar fæddist á Akranesi 2. febrúar 1935. Foreldrar hans voru Guðmundur Björnsson, kennari á Akranesi, og Pálína Þorsteinsdóttir hús­móðir. Ormar var elstur fimm systkina, hin yngri voru Gerður Birna, Björn Þorsteinn, Ásgeir Rafn og Atli Freyr.

Ormar útskrifaðist frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1955. Hann lauk arkitektaprófi frá Tækniháskólanum í Stuttgart í Þýskalandi árið 1962. Heimkominn fékk hann Fulbright-styrk til frekara náms og lauk meistaraprófi frá Harvard-háskóla árið 1966.

Ormar starfaði hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur til 1967 en þá stofnaði hann Arkitektastofuna OÖ ásamt Örnólfi Hall. Arkitektastofan vann til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Árið 1988 hlaut Eiðistorg á Seltjarnarnesi sérstaka viðurkenningu í alþjóðlegri samkeppni IWCC. Svartsengi, orkuver Hitaveitu Suðurnesja, er þekktast verka Ormars á alþjóðavettvangi. Önnur verk eru til dæmis Verzlunarskóli Íslands, Flensborgarskóli, Fellaskóli, Grænaborg, íþróttamiðstöð í Stykkishólmi og Ytri-Njarðvíkurkirkja.

Margar bygginga hans eru í brútalískum stíl og hannaðar í samvinnu við listamenn svo sem Landsbankahúsið á Akranesi, Öskjuhlíðarskóli og Espigerði 2-4.

Íþróttir og útivist áttu stóran sess í lífi Ormars. Hann var í liði ÍS sem sigraði á fyrsta meistaramóti Reykjavíkur í körfubolta árið 1957 og lék körfubolta fram á áttræðisaldur. Fjallaferðir voru margar, gangandi eða á hestbaki. Að auki stundaði hann skíði og tennis og síðari árin golf og sund reglulega.

Ormar var formaður Arkitektafélags Íslands í tvígang. Hann lét af störfum 75 ára.

Eiginkona Ormars er Kristín Valtýsdóttir, f. 27. febrúar 1939. Börn Ormars og Kristínar eru 1) Sif læknir, f. 1961; 2) Harri lögfræðingur, f. 1964; 3) Orri Þór læknir, f. 1965; 4) Björk ferðamálafræðingur, f. 1972. Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörn þrjú. Útför Ormars verður frá Langholtskirkju 3. október kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka