Ávísaði óhóflegu magni lyfja í áratug á látna konu

Maðurinn ávísaði meðal annars miklu magni lyfja til fjögurra sjúklinga …
Maðurinn ávísaði meðal annars miklu magni lyfja til fjögurra sjúklinga sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við. Þannig hafi lyfin meðal annars ekki virkað saman og hann hafi vanrækt eftirfylgni. Einnig hafi einn sjúklingurinn verið látin í níu ár og læknirinn haldið áfram að ávísa til hennar lyfjum. mbl.is/Eyþór

Íslenskur læknir skrifaði út óhóflegt magn af ávana- og fíknilyfjum um níu ára skeið eftir að konan var látin. Breytti hann meðal annars lyfjameðferð hennar mikið á tímabilinu samkvæmt upplýsingum frá sambýlismanni hennar án þess að sannreyna hvort breytingarnar skiluðu árangri og að hún væri yfir höfuð á lífi.

Fjórfaldaði læknirinn meðal annars skammt hennar af töflum yfir um sex ára tímabil, en skammtarnir og tíminn kölluðu á gott eftirlit með sjúklingi. Var magnið „langt umfram það magn sem eðlilegt mætti teljast. Jafnvel svo mikið að það gæti ógnað heilsu sjúklings.“

Að lokum gaf læknirinn út vottorð vegna umsóknar um örorkubætur þegar konan hafði verið látin í þrjú ár. Var vottorðið meðal annars notað til að svíkja út örorkubætur til fjölda ára eftir andlát konunnar.

Landlæknir hafði afskipti í átta skipti af lækninum

Þetta er meðal þess sem lesa má úr úrskurði heilbrigðisráðuneytisins þegar það staðfesti ákvörðun embættis landlæknis um að svipta lækninn starfsleyfi sínu í fyrra.

Í úrskurðinum er málið rakið, en þar kemur meðal annars fram að embætti landlæknis hafi um nokkurra ára skeið haft afskipti af lækninum vegna lyfjaávísana hans, eða í samtals átta skipti árin 2012 til 2016.

Voru sjúklingar hjá lækninum frá 1997

Rifjað er upp að konan og sambýlismaður hennar hafi verið sjúklingar hjá lækninum síðan árið 1997. Þau hafi bæði verið alvarlega veik og fengið útgefin ávana- og fíknilyf í miklu magni frá lækninum um langt skeið.

Konan kom reglulega til læknisins þangað til í mars 2014. Stuttu síðar lést hún í heimalandi sínu, Úkraínu. Í kjölfarið hóf sambýlismaður hennar að koma til læknisins með umboð frá konunni. Sagði hann konuna halda meira til í Úkraínu, en koma reglulega til Íslands, en að hún treysti sér þá ekki til að hitta lækninn.

Ávísaði lyfjum sem virkuðu ekki saman

Skoðun embættis landlæknis náði til ávísana til konunnar og sambýlismanns hennar og tveggja annarra. Kemur fram að læknirinn hafi ávísað þeim lyfjum sem virkuðu ekki saman og eftirliti verið ábótavant. Tekið er fram að allir sjúklingarnir hafi átt við margþættan vanda að stríða sem geti reynst flóknir viðureignar og kallað á meðferð sem samræmist ekki fyllilega þeim viðmiðum sem komi fram í sérlyfjaksrá.

„Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að kærandi [læknirinn] hafi ávísað lyfjum til umræddra fjögurra sjúklinga sem virka ekki saman og að eftirfylgni með sjúklingunum hafi ekki verið fullnægjandi, svo sem mikilvægt er þegar meðferð er viðhöfð með ávana- og fíknilyfjum. Þá er sérstaklega mikilvægt að viðhafa góða eftirfylgni með sjúklingi í þeim tilvikum sem sjúklingur fær ávísað ávana- og fíknilyfjum umfram hámarksskammt samkvæmt sérlyfjaskrá. Sú var ekki raunin. Kærandi hafi þar að auki breytt lyfjameðferð og bætt við ávana- og fíknilyfjum án þess að eiga samskipti við sjúkling fyrstu hendi eða taka hann til skoðunar,“ segir í úrskurði ráðuneytisins.

Sagðist hafa verið blekktur

Læknirinn sagði í kæru sinni og rökstuðningi að hann hafi látið blekkjast af þessum svikum og að honum hafi ekki verið kunnugt um að konan væri látin fyrr en í byrjun árs 2023 þegar lögreglan lét hann vita af því að lyfin væru gefin út til látinnar konu.

Hóf landlæknir í kjölfarið að skoða mál læknisins og upplýsti hann í ágúst að svipta ætti hann starfsleyfi og var það svo gert í september. Læknirinn sætti sig ekki við þetta og kærði ákvörðunina til ráðuneytisins sem nú hefur staðfest ákvörðun landlæknis.

Almennt gildir að áminna eigi starfsmenn áður en tekin eru harðari skref eins og starfsleyfissvipting. Hins vegar er heimilt að gera það þegar um alvarleg brot er að ræða og telur ráðuneytið að það eigi við í þetta skiptið.

Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embætti landlæknis frá í fyrra um …
Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embætti landlæknis frá í fyrra um að svipta lækninn starfsleyfi sínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Braut alvarlega gegn starfsskyldum sínum

„Af öllu því sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum sem læknir með margvíslegum hætti og starfað þvert gegn þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem landlæknir hefur gefið út um störf og starfshætti lækna. Kærandi hafi ávísað óhóflegu magni af ávana- og fíknilyfjum til fjögurra sjúklinga. Kærandi hafi ávísað fjölda mismunandi lyfja án tillits til samvirkni þeirra eða hvort þau hafi verið æskileg til framhaldsmeðferðar án fullnægjandi eftirfylgni,“ segir í úrskurði ráðuneytisins.

Læknirinn gagnrýndi embættið fyrir að setja ábyrgðina alfarið á hans herðar að ganga úr skugga um að konan væri lífs eða liðin. Vísaði hann til þess að hún hefði allan tímann ekki verið skráð látin í þjóðskrá. Þá sé venjan í fjölda tilfella að hitta ekki sjúkling augliti til auglitis og þekkt sé t.d. í tilfelli heilabilaðs fólks að ættingjar mæti í stað sjúklinga. Þá hafi örorkuvottorðið ekki verið orðað þannig að skýrt væri að hann hefði hitt konuna.

„Fórnarlamb þaulskipulagðs svikavefs

Sagðist læknirinn vera „fórnarlamb þaulskipulagðs svikavefs sem teygði anga sína til margra aðila og stofnana.“ Því væri það ekki vanræksla af hans hálfu að hafa ávísað lyfjunum eftir andlát konunnar.

Einnig er fundið að því að læknirinn hafi í 50 skipti sent Sjúkratryggingum Íslands reikninga vegna viðtals við konuna eftir að hún lést. Sagði hann það algengt þegar um væri að ræða tíma bókaða á konuna, þótt sambýlismaður hennar hafi komið í hennar stað, enda með umboð.

Hefði átt að vita að ekki var allt með felldu

Embættið og ráðuneytið segja hins vegar að læknirinn hafi augljóslega orðað vottorðið þannig að draga mætti þá ályktun að konan hefði komið í skoðun til hans. Þá gerðu lög einnig ráð fyrir að læknar vottuðu ekki nema það sem þeir gætu sannreynt sjálfir.

„Kærandi hefði sem grandvar læknir mjög fljótlega átt að gera sér grein fyrir því að ekki væri allt með felldu,“ segir í úrskurði ráðuneytisins. Telur það að læknirinn hafi með alvarlegum hætti bortið gegn ákvæðum heilbrigðislöggjafar og starfsskyldum sínum með því að sýna alvarlegt hirðuleysi í störfum sínum auk þess að viðhafa atferli sem fór í bága við allar vísireglur og leiðbeiningar sem læknum ber að fylgja.

Var niðurstaða embættis landlæknis því staðfest og stendur því starfsleyfissvipting læknisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka