Ræðismaður Íslands í Ísrael hefur verið í sambandi við þá Íslendinga sem búa í Ísrael en enn sem komið er hefur enginn Íslendingur óskað eftir aðstoð.
Þetta staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is. Hann segir allt að tíu Íslendinga búa í Ísrael.
Íran skaut um 180 eldflaugum á Ísrael fyrr í kvöld og tveir árásarmenn hófu skothríð á borgara í borginni Tel Avív skömmu fyrr.
Hið minnsta fjórir borgarar létu lífið í skotárásinni og sjö til viðbótar særðust eftir skothríð árásarmannanna sem voru drepnir í átökum við lögreglu.
Loftárás Írans hæfði einhver skotmörk innan Ísraels og að minnsta kosti einn er látinn.