Í árdaga vann lengi vel aðeins ein kona hjá Landhelgisgæslunni. Hún var ritari forstjórans. „Svo kemur Alma...,“ sagði Páll Halldórsson fyrrverandi flugstjóri hjá Gæslunni til áratuga, þegar talið barst að hlutfalli kynjanna hjá stofnuninni.
Páll og Benóný Ásgrímsson ásamt Júlíusi Ó. Einarssyni eru gestir Dagmála í dag og ræddu þar nýja bók sem þeir hafa skrifað. Hún ber þann viðeigandi titil, Til taks. Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands - fyrstu 40 árin.
Með komu Ölmu Möller, sem fyrsta kvenlæknisins um borð í björgunarþyrlu breyttist margt. „Menn fóru að raka sig og þrífa sig mun betur og hættu meira segja að blóta,“ upplýsir Benóný.
Páll Halldórsson viðurkennir að hann hafi alls ekki viljað fá konu. Hann segist hafa talið þau störf sem unnin voru í og við björgunarþyrluna vera karlmannsverk. Alma Möller, sem var hluti af þríeykinu á kórónuveirutímunum og gegndi starfi landlæknis, var fljót að stinga upp í Pál. Hann viðurkennir það líka. „Hún var yfirleitt mætt fyrst í útköll og sminkuð og flott. Hún gerði allt sem karlmaður gat,“ viðurkennir hann hlæjandi. Og hann gengst við því að hafa verið mikil karlremba og það sé bara allt í lagi.
Fleiri kvenlæknar fylgdu í kjölfarið og stóðu upp til hópa mjög vel. „Það var helst að þær kvörtuðu ef maður kveikti sér í pípu í fluginu,“ segir Páll. Já, það var reykt í björgunarþyrlunum, alveg þar til í júní 1995 þegar kom að því að ferja nýja Super Puma-vél heim til Íslands. Þá ákvað Páll Halldórsson að eftirleiðis yrði ekki reykt í flugvélum Landhelgisgæslunnar. Benóný Ásgrímsson segir að fjórir hafi verið í áhöfn þyrlunnar í heimfluginu og allir reykingamenn. Þeir mótmæltu allir og báðu Pál að fresta þessari ákvörðun þar til heim væri komið. „Það var ekki við það komandi,“ og sú ákvörðun hefur verið í gildi síðan.
Með fréttinni fylgir sá hluti viðtalsins þar sem rætt er um kynjahlutföll og reykingar hjá Gæslunni. Viðtalið í heild sinni er aðgengilegt áskrifendum Morgunblaðsins.