Karlremba og reykingar í þyrlu Gæslunnar

Í ár­daga vann lengi vel aðeins ein kona hjá Land­helg­is­gæsl­unni. Hún var rit­ari for­stjór­ans. „Svo kem­ur Alma...,“ sagði Páll Hall­dórs­son fyrr­ver­andi flug­stjóri hjá Gæsl­unni til ára­tuga, þegar talið barst að hlut­falli kynj­anna hjá stofn­un­inni.

Páll og Benóný Ásgríms­son ásamt Júlí­usi Ó. Ein­ars­syni eru gest­ir Dag­mála í dag og ræddu þar nýja bók sem þeir hafa skrifað. Hún ber þann viðeig­andi titil, Til taks. Þyrlu­saga Land­helg­is­gæslu Íslands - fyrstu 40 árin.

Með komu Ölmu Möller, sem fyrsta kven­lækn­is­ins um borð í björg­un­arþyrlu breytt­ist margt. „Menn fóru að raka sig og þrífa sig mun bet­ur og hættu meira segja að blóta,“ upp­lýs­ir Benóný.

Páll Halldórsson viðurkennir að hann hafi alls ekki viljað fá konu. Hann segist hafa talið þau störf sem unnin voru í og við björgunarþyrluna vera karlmannsverk. Alma Möller, sem var hluti af þríeykinu á kórónuveirutímunum og gegndi starfi landlæknis, var fljót að stinga upp í Pál. Hann viðurkennir það líka. „Hún var yfirleitt mætt fyrst í útköll og sminkuð og flott. Hún gerði allt sem karlmaður gat,“ viðurkennir hann hlæjandi. Og hann gengst við því að hafa verið mikil karlremba og það sé bara allt í lagi.

Bannaðar reykingar í nýju þyrlunni

Fleiri kvenlæknar fylgdu í kjölfarið og stóðu upp til hópa mjög vel. „Það var helst að þær kvörtuðu ef maður kveikti sér í pípu í fluginu,“ segir Páll. Já, það var reykt í björgunarþyrlunum, alveg þar til í júní 1995 þegar kom að því að ferja nýja Super Puma-vél heim til Íslands. Þá ákvað Páll Halldórsson að eftirleiðis yrði ekki reykt í flugvélum Landhelgisgæslunnar. Benóný Ásgrímsson segir að fjórir hafi verið í áhöfn þyrlunnar í heimfluginu og allir reykingamenn. Þeir mótmæltu allir og báðu Pál að fresta þessari ákvörðun þar til heim væri komið. „Það var ekki við það komandi,“ og sú ákvörðun hefur verið í gildi síðan.

Með fréttinni fylgir sá hluti viðtalsins þar sem rætt er um kynjahlutföll og reykingar hjá Gæslunni. Viðtalið í heild sinni er aðgengilegt áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert