Óánægju gætir meðal foreldra á Hvolsvelli eftir að bilun í klukku í GPS-kerfi strætó varð til þess að hópur menntskælinga missti af rútunni í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í gærmorgun.
Ók rútubílstjórinn af stað sjö mínútum fyrr en áætlað var.
Hilmar Stefánsson, forstöðumaður almenningssamgangna hjá Vegagerðinni, segir að stofnunin sé þegar búin að bregðast við og kalla eftir formlegri skýrslu á því sem gerðist frá rekstaraðilanum.
Segir hann Vegagerðina eiga eftir að fá hrein og skýr svör um atburðarásina en samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefur nú undir höndum lagði rútubílstjórinn fyrr af stað sökum bilunar í klukku í GPS-kerfi strætó.
Aðspurður kveðst Hilmar ekki vita nákvæmlega hversu margir nemendur misstu af rútunni en hann segir um fimm til sjö ábendingar hafa borist frá farþegum eða foreldrum.
Þá segist hann ekki vita til þess að þetta hafi áður komið fyrir. Þetta sé einangrað tilvik.