Í dag hefst árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.
Með því að kaupa og bera Bleiku slaufuna er sýnd samstaða í verki með málstaðnum, að því er segir í tilkynningu. Bleiki dagurinn verður miðvikudaginn, 23. október.
Til að marka upphaf Bleiku slaufunnar blæs Krabbameinsfélagið til opnunarhátíðar í Háskólabíói í kvöld, þriðjudaginn 1. október.
Bleik stemmning verður alls ráðandi í anddyri frá kl. 18 þar sem samstarfsaðilar Bleiku slaufunnar kynna vörur sínar og þjónustu til styrktar átakinu og Dj Dóra Júlía sér um tónlistina. Dagskrá á sviði hefst klukkan 19.30. Forseti Íslands heiðrar samkomuna með stuttu ávarpi, auglýsing Bleiku slaufunnar verður frumsýnd og Jón Ólafsson leikur af fingrum fram með þeim Sigríði Thorlacius og Valdimar Guðmundssyni. Miðasala fer fram á tix.is.
„Á Íslandi greinist að meðaltali 971 kona með krabbamein á ári hverju. Sem betur fer eru stöðugar framfarir í greiningu og meðferð sem leiða til þess að fleiri og fleiri lifa af. Í árslok 2023 voru 10.070 konur á lífi sem fengið höfðu krabbamein en því miður eru krabbamein enn stærsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla á Íslandi og á hverju ári missum við að meðaltali um 306 konur úr krabbameinum,” segir í tilkynningunni.
„Frá árinu 2008 hafa íslenskir hönnuðir, í góðu samstarfi við Krabbameinsfélagið, skapað einstaka Bleika slaufu á hverju ári. Í þeim hópi eru okkar færustu hönnuðir og gullsmiðir. Ein undantekning er á þessu, árið 2011, þegar afrískar konur hönnuðu og framleiddu slaufuna og fengu þá í fyrsta sinn laun fyrir sína vinnu. Frá 2010 hefur sjónum verið beint að öllum krabbameinum hjá konum í Bleiku slaufunni þó brjóstakrabbamein sé ávallt í forgrunni enda algengasta krabbamein kvenna,“ segir í tilkynningunni.
„Í ár er sjónum beint að aðstandendum undir slagorðinu Þú breytir öllu. Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum. Við vekjum athygli á aðstæðum þeirra, því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna í alvarlegum veikindum en líka þeim áhrifum sem veikindi ástvinar hafa óhjákvæmilega á líf þeirra.“
„Sigga Soffía er danshöfundur í grunninn og þekktust fyrir flugeldasýningar og blómlistaverk en hún hannar undir nafninu Eldblóm. Hún er fjölhæfur listamaður og líkt og klifurplantan sem teygir anga sína víða teygir hönnun hennar sig allt frá dansi yfir í vöruhönnun með anga yfir í mat, flugeldasýningar, ljóðlist og nú skartgripi.
Verkefnið hefur persónulega þýðingu fyrir hana, en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í skurðaðgerð, lyfja- og geislameðferð og hefur því miklar og sterkar tilfinningar tengdar þessu verkefni,“ segir einnig í tilkynningunni.
„Ég þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa bakland og félag eins og Krabbameinsfélagið til styðja við mann í ferlinu öllu og ekki síður eftir að meðferð lýkur. Félagið gaf mér leiðarvísi í þeim nýja veruleika sem ég þurfti að fást við. Mér fannst mér bera skylda til að bera þennan boðskap áfram og þakka fyrir þann mikilvæga stuðning sem ég hef fengið,” segir hún í tilkynningunni.
Bleika slaufan í ár er þrjú eldblóm sem mynda skínandi blómakrans sem lítur út fyrir að hafa verið dýft ofan í fljótandi málm.