Öllum flugmönnum Mýflugs sagt upp

Mýflug missti samning um sjúkraflug um áramótin.
Mýflug missti samning um sjúkraflug um áramótin. Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið Mýflug hefur sagt upp öllum 13 flugmönnum flugfélagsins. Vonast er til þess að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Félagið hefur fá verkefni en gerði tilboð í flug til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Ekkert bólar þó á svörum frá Vegagerðinni. 

Svo segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs.

Of margir flugmenn miðað við verkefni

„Við erum með allt of marga flugmenn miðað við verkefni. Við erum að vonast til þess að geta endurráðið alla eða sem flesta, og helst alla, áður en uppsagnarfresturinn rennur út,“ segir Leifur.

Mýflug hefur einungis einn fluglegg á sínum snærum en hann er á milli Hafnar í Hornafirði og Reykjavíkur.

„Við þurfum ekki þrettán flugmenn í það.“

Eins og fram hefur komið missti Mýflug samning um sjúkraflug um síðustu áramót.

Viðurkennir Leifur að fyrir vikið hafi árið verið erfitt. Hann segir þó félagið standa ágætlega þrátt fyrir taprekstur ársins.

Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs.
Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs. mbl.is/Sigurður Bogi

Fá engin svör frá Vegagerðinni 

„Við buðum í flugið til Vestmannaeyja og Húsavíkur en höfum ekki enn fengið svör þar. Vegagerðin bað okkur um að framlengja tilboðið um síðustu mánaðamót út september. Svo er fresturinn nú liðinn og við höfum engin svör fengið,“ segir Leifur.

Að sögn hans bauð enginn annar í flugleggina til Húsavíkur og Vestmannaeyja.

„Ég get ekki svarað því hvers vegna við fáum ekki svör frá Vegagerðinni.“

Hafa tapað tugum milljóna á Erni 

Mýflug var í hópi fjárfesta sem fjárfesti í flugfélaginu Erni í upphafi árs 2023. Rekstur Ernis reyndist þungur og nýlega kom fram gjaldþrotabeiðni á félagið.

Að sögn Leifs hefur Mýflug tapað tugum milljóna á fjárfestingunni.

„Við flugum til að mynda mikið í sumar fyrir Erni en við fengum það ekki greitt. Það var vegna þess að við flugum fyrir Erni, Ernir fékk greitt en peningarnir fóru í það að greiða skattskuld til ríkisins og í að greiða lífeyrissjóðum vanskil sem voru tilkomin áður en við fórum þar inn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert