Kristrún Frostadóttir þarf að taka af meiri einurð til í forystusveit Samfylkingarinnar Þetta er mat Kristínar Gunnarsdóttur, hlaðvarpsstjórnanda, sem segir ásýnd flokksins vera eins og súr kennarastofa.
Hún segir Þórð Snæ munu afla flokknum fylgis meðal eldri kjósenda. Á sama tíma segir Björn Ingi Hrafnsson, sem er gestur Spursmála ásamt Kristínu, að það þurfi að teikna upp allt aðra áætlun fyrir Samfylkinguna ef Dagur B. Eggertsson verði í framboði fyrir flokkinn. Mikið sé í húfi fyrir formanninn sem hafi ákveðið að teikna þá mynd upp af flokknum að þar væri á ferðinni nýtt afl, en ekki gamalt.
Orðaskiptin um þessa stöðu Samfylkingarinnar og Kristrúnar Frostadóttur má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
„Kristrún hefur hefur gengið fram með ofboðslegum hætti undanfarnið. En það er samt held ég smá kalt á toppnum hjá henni. Þessi flokkur, hún er þarna en ég meina allir hinir. Þetta er svolítið eins og súr kennarastofa.“
Ertu með einhverja sérstaka í huga?
„Það er bara stemningin þarna fyrir utan hana og Jóhann Pál sem eru eitthvað tvíeyki. En svo er það restin sem er svolítið súr. Þannig að ég held að það sé dálítið mikilvægt fyrir hana núna, sérstaklega þar sem hún er núna í skoðanakönnunum aðeins að trenda niður á við, alla vega við hliðina á Viðreisn og Miðflokki. Því ég held með henni. Ég segi bara, þetta er gömul bekkjarsystir mín og flott kona. En ég held að það þurfi að rétta henni eina „man up“ pillu og hún þarf bara að taka til í þessum flokki og sýna okkur einhvern lista.“
En hefur hún ekki verið að taka til, það hefur aldeilis dottið af vagninum ótrúlegasta fólk?
„Já, en það er fólk sem er að fara í miklu fússi. Maður veit ekki alveg hvað er að gerast bak við tjöldin.“
Þú vilt að hún hafi frumkvæði að því að henda fólki út.
„Yes. Ég vil það. En með Þórð Snæ, þá held ég að fyrir stóran kjósendahóp, sérstaklega í eldri kantinum, séu mjög ánægðir með að fá Þórð Snæ þarna um borð. Sem er mjög skemmtilegt. En hún þarf sérstaklega í ljósi þess sem Jón Gnarr gerði í gær að hann ákvað að stilla sér upp við hlið Þorgerðar og þeirra í Viðreisn. Að það þar að koma með einhvern sem er í smá stuði. Þórður Snær er með allan harm heimsins á herðunum, alla daga. Þannig að fólk nennir ekki bara að horfa á eitthvað leiðinlegt“,“ segir Kristín.
Harmljóðin eru vinsælar bókmenntir en það er annað mál.
„Ég held að það sé alveg rétt sem þið voruð að segja að Samfylkingin á eftir að kynna sína lista. Kristrún og hennar fólk vill sjá breytingar. Þau hafa bara talað með þeim hætti. Það eru ekki allir í þingflokknum núna sem eru ekkert hrifnir af því sem hefur verið að gerast og hún hefur ekkert haft þingflokkinn með sér. Þau hafa hins vegar ekkert getað snert við henni þar sem hún hefur verið með svo mikið fylgi og mikill kraftur í flokknum.“
Þú ert að vísa þar í Oddnýju Harðardóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur.
„Fólk sem tilheyrir þá gömlu Samfylkingunni sem Kristrún hefur beinlínis talað um, rétt eins og Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hefur gert. Og Samfylkingin hefur aðeins verið að dala í könnunum þrátt fyrir að vera með svona afgerandi forystu og ég held að þetta verði svolítið athyglisvert með Jón Gnarr. Margir hefðu kannski talið að hann gæti farið í Samfylkinguna. Honum finnst þau greinilega of vinstri sinnuð.“
Hann hefur færst mjög hratt til hægri og hann gerði það beinlínis innan kosningabaráttunnar í forsetakjörinu. Þetta gerðist bara í rauntíma.
„Ég held að ég sé ekki að segja neitt leyndarmál en ég upplifi það bara sem miðaldra karlmaður að mér finnst ég hægri sinnaðri með hverjum morgninum sem ég vakna,“ útskýrir Björn Ingi.
„Já, við höfum tekið eftir því,“ skýtur Kristín að.
„Þannig að ég skil það vel,“ segir Björn Ingi.
Vinstri mennirnir hljóta þá að fagna því að það fækkar alltaf morgnunum sem við vöknum. Þetta hlýtur einhvern tíma að taka enda.
„Það eru þín orð. En skiljið þið. Það að Þórður Snær sé í Samfylkingunni kemur ekki nokkrum manni á óvart. Ég geri ráð fyrir því að málefnaskrá flokksins muni lengjast töluvert,“ heldur Björn Ingi áfram.
En heldur þú að þetta afli flokknum fylgis?
„Ég veit það ekki. Mér finnst stóra spurningin vera hvort Dagur B. Eggertsson ætli í framboð eða ekki. Kristrún, alveg eins og breski Verkamannaflokkurinn talar fyrir breytingum, breytt Samfylking, breytt Ísland, við ætlum að gera þetta allt öðruvísi og svoleiðis. Og það allt er í húfi ef hann situr við hliðina á henni,“ útskýrir Björn Ingi.
Gamla Ísland?
„Dagur B. Eggertsson er bara jafn umdeildur stjórnmálamaður, hvort sem okkur líkar betur eða verr, eins og Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson. Búinn að vera lengi og taka mikið til sín. Þannig að það handrit þyrfti allt að endurskrifa og kannski er Þórður Snær kominn í það verkefni,“ segir Björn Ingi.
Ja, hann hefur skrifað nokkrar bækur.
Viðtalið við þau Kristrínu Gunnarsdóttur og Björn Inga Hrafnsson má sjá og heyra í spilaranum hér að neðan.